fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

Gurra varð fyrir óhugnanlegri innrás á heimili sitt – „Ég gætti þess að halda ró minni“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 29. ágúst 2020 11:53

Gurra Hauksdóttir Schmidt. Mynd: Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gurra Hauksdóttir Schmidt varð fyrir afar óþægilegri reynslu á föstudagsmorgun er tveir ungir menn ruddust inn á heimili hennar, stálu snjallsíma hennar og skoðuðu innbú hennar áður en henni tókst að koma þeim burt.

Gurra rekur gistiheimili í bænum Jyderup á Vestur-Sjálandi í Danmörku. Í bænum búa um 6.000 manns en innrásarmennirnir eru ekki þaðan, að sögn Gurru. Þeir töluðu hvorki ensku né dönsku en virtust ræða sín á milli á arabísku, en þó getur Gurra ekkert fullyrt um hvaða tungumál það var. Atvikið átti sér stað í íbúð Gurru sem er inni í gistiheimilinu. Gerðist þetta um ellefu-leytið að staðartíma á föstudaginn.

„Ég sit bara hér við tölvuna mína og er að vinna inni í stofu. Þá koma hingað tveir ungir menn, alveg inn í stofu, sýna mér peninga og segja bara „fótó fótó“. Ég vissi ekkert hvað þeir voru að meina. Annar þeirra settist á sófann fyrir framan sjónvarpið mitt. Hann var að skoða sig vel um á meðan ég ýtti hinum manninum út. Sá sýndi mér veskið sitt fullt af peningum. „Út með þig,“ segi ég, ýti honum út og fer svo inn til að sækja hinn. Ég var mjög róleg og yfirveguð, ég gætti þess að halda ró minni. Þeir fara út og ég kem aftur inn í stofu til að finna símann minn, því ég vildi ná mynd af bílnum þeirra.“

Mennirnir voru hins vegar farnir en síminn fannst hvergi og virðist liggja fyrir að þeir hafi tekið hann. En Gurra gæti haft ástæðu til að óttast að mennirnir komi aftur: „Þeir voru með röntgen-augu á öllu hérna inni og skoðuðu sig afar vel um,“ segir hún.

Þrátt fyrir að Gurra hafi verið róleg og yfirveguð á meðan þessu fór fram varð hún mjög skelkuð eftir atvikið. „Kannski var ég svona róleg vegna þess að það voru tvær konur hérna sem vinna hjá mér. Þær áttuðu sig ekki á því hvað var í gangi og héldu að þetta væru bara einhverjir sem eru í gistingu hérna.“

Lögreglan sýnir málinu engan áhuga

„Þetta var mjög snöggt og mjög óþægilegt í alla staði. Sjokkið kom eftir á,“ segir Gurra en lögregla sýnir máli hennar lítinn áhuga og hefur í raun ýtt því frá sér.

„Ég hringdi strax í lögreglu en þeir vildu ekkert koma, málið ekki nógu stórt. Þeir ráðlögðu mér að keyra niður í bæ og sjá hvort ég sæi mennina en ég hafði tekið vel eftir fatnaði þeirra. Þeir voru hins vegar hvergi sjáanlegir.“

Hún tilkynnti málið einnig til tryggingafélags og hugsanlegt er að það knýji lögreglu til aðgerða.

Aðspurð segir Gurra að lítið hafi verið um afbrot í bænum þann tíma sem hún hefur búið þarna en alltaf sé eitthvað um afbrot í dönskum smábæjum. Engin lögreglustöð er í bænum og er næsta lögreglustöð í um 20 km akstursfjarlægð.

„Ég held að þeir geri ekki neitt nema það koma í ljós að þetta sé hluti af einhverjum faraldri,“ segir Gurra.

Varð fyrir stórþjófnaði fyrir 14 árum

Gurra hefur búið í Danmörku í 16 ár og þrátt fyrir að hún hafi áður orðið fyrir barðinu á þjófum hefur henni líkað afar vel í landinu og átt þar gott líf. Gurra, sem er gift þýskum manni, varð fyrir þjófnaði árið 2006 rétt í þann mund er hún var að opna gistiheimili það sem hún rekur.

„Við vorum ekki búin að taka upp úr öllum kössum og koma okkur fyrir. Það voru flatskjáir í öllum herbergjum og ný rúm, þetta sem maður kaupir inn þegar maður er að stofna svona rekstur. Skyndilega þarf ég að fara til Íslands á mánudegi og maðurinn þarf að fara í vinnuna sama dag. Við vorum á djasshátíð daginn áður og þar vorum við að tala um þetta. En ég gruna alls ekki vini mína,“ segir Gurra, en einhvern veginn barst það óprúttnum aðilum til eyrna að hún væri að fara burtu: „Þegar maðurinn minn kom heim úr vinnunni var búið að tæma allt. Þetta var svakalegt tjón.“ Meðal þess sem var tekið voru allir skartgripir Gurru og verðmætt tónlistarsafn eiginmanns hennar.

Að sögn Gurru upplýstist þetta mál aldrei en það var þó rannsakað mun betur en þjófnaðurinn sem hún varð fyrir á föstudag.

Hvað sem þessu líður hefur Gurru líkað ákaflega vel lífið í Danmörku. „Mér leið eins og heima hjá mér frá fyrsta degi en ég kom hingað með Norrænu árið 2004 og ætlaði bara að vera í eitt ár, var þá komin með vinnu. En árin eru orðin 16.“

Missti son sinn og stofnaði minningarjóð

Árið 2018 stofnaði Gurra Öruggt skjól – minningarsjóð um son hennar, Þorbjörn Hauk Liljarson, sem varð bráðkvaddur það ár, 46 ára að aldri, en hann hafði búið á götunni til margra ára. „Þorbjörn barðist við fíknisjúkdóm og náði ekki fótfestu í lífinu vegna hans. Hann gerði tilraunir – en fann ekki það öryggi sem þarf til að vaxa án hugbreytandi efna,“ segir í texta á síðu sjóðsins.

Gurra sinnir ötullega starfi fyrir sjóðinn og kom hún til Íslands alls sjö sinnum á síðasta ári vegna þeirra starfa. „Við stefnum að því að opna áfangaheimili fyrir þá sem eru að koma úr fangelsum og meðferðum,“ segir Gurra en hér má skoða Facebook-síðu sjóðsins.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Auglýsingar 20Bet að gera Íslendinga sturlaða – „Ég er við það að hætta alveg að horfa á YouTube“

Auglýsingar 20Bet að gera Íslendinga sturlaða – „Ég er við það að hætta alveg að horfa á YouTube“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Illugi furðar sig á Mannanafnanefnd – „Ætti að vera fyrsta sparnaðarleið Kristrúnar Frostadóttur að leggja niður þessa idjótísku nefnd“

Illugi furðar sig á Mannanafnanefnd – „Ætti að vera fyrsta sparnaðarleið Kristrúnar Frostadóttur að leggja niður þessa idjótísku nefnd“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bryggjan brugghús komið á sölu

Bryggjan brugghús komið á sölu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur