fbpx
Sunnudagur 20.apríl 2025
Fréttir

Katrín skautar hjá spurningum um afsagnir Þórdísar og Áslaugar: „Ekki verið hefðin hér“

Jón Þór Stefánsson
Föstudaginn 28. ágúst 2020 15:45

Ráðherrarnir: Þórdís, Áslaug og Katrín - Mynd Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, var gestur í útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu í dag.

Frosti Logason, annar stjórnandi þáttarins, spurði hana út í „agabrot“ ráðherra – annars vegar bæjarferð Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og hins vegar þyrluflug Áslaugar Örnu, dómsmálaráðherra. Bæði mál hafa verið áberandi í fjölmiðlum undanfarið. Frosti sagði að annars staðar í heiminum hefðu þær mögulega þurft að segja af sér vegna þessara mála og spurði hvers vegna að staðan væri ekki þannig á Íslandi.

Katrín benti á að bæði Þórdís og Áslaug hefði beðist afsökunar, en var treg til að útskýra hvers vegna ráðherrar segðu ekki af sér út af málum sem þessum á Íslandi. Hún sagði þó að afsagnir ráðherra hefðu færst í aukana undanfarin ár og að stjórnmálamenning tæki hægum breytingum. Þá sagðist Katrín ekki hafa orðið vör við það að fólk kallaði eftir afsögnum þeirra.

„Þær hafa nú báðar beðist afsökunar hvor um sig. Þær hafa báðar svarað fyrir þetta,“ sagði Katrín. Hún hélt því fram að á Íslandi segðu ráðherrar ekki oft af sér. „Ég hef nú ekki séð mikið kallað eftir afsögn þessara ráðherra. Þetta hefur ekki verið hefðin hér á Íslandi.“

„Breytingar á stjórnmálamenningu taka tíma og mér sýnist þær vera að færast í áttina að því að stjórnmálafólk fer að taka ábyrgð.“ Sagði hún svo.

Þá var Katrín einnig spurð út í gjörðir ríkisstjórnarinnar er varða heimsfaraldur kórónaveiru. Hún sagði að í raun hefði ísland tekið til mikið vægari aðgerða en aðrar Evrópuþjóðir.

„Eitt af því sem við þurfum að gera er að reikna út samfélagslegan kostnað og mat á heilbrigði þjóðarinnar, ekki bara út frá faraldrinum, heldur öðrum kvillum. Við getum sem dæmi bent á að við sem samfélag höfum í raun og veru verið með vægari aðgerðir hér innanlands, en flest önnur samfélög í Evrópu, og það er ástæða fyrir því. Það er ekki bara sóttvarnarsjónarmið heldur finnst okkur ekki forsvaranlegt gagnvart samfélagslegum og heilbrigðissjónarmiðum að gera hluti eins og að loka börn inni í sex vikur, eins og var gert á Spáni. Okkur finnst ekki forsvaranlegt að vera með dróna sem eltir fólk og segir þeim að halda áfram að hreyfa sig þegar það fer út, eins og var gert í Belgíu. Við höfum verið með áherslu á að ganga ekki lengra en þörf krefur.“

Um gagnrýnisraddirnar sagði Katrín að margir þættust vera með öll svörin, en það væri ekki endilega trúverðugasta fólkið.

„Við getum auðvitað stillt okkur upp sem fólkinu sem hefur öll svörin. Ég hef bara rosalega litla trú á því fólki. Það sem við höfum reynt að gera er byggja allt sem við gerum á gögnum.“

Katrín fjallaði einnig um komandi kosningar, nýja stjórnarskrá og fleiri COVID-tengd mál í viðtalinu. Hér að neðan má hlusta á þátt Harmageddon frá því í dag í heild sinni. Viðtalið við forsætisráðherra er í lok þáttar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“