Þrjátíu og níu ára gamall maður, Jón Rúnar Pétursson, er ákærður fyrir að hafa hrint konu fram af svölum íbúðar sinnar í fjölbýlishúsi í Breiðholti, mánudagskvöldið 16. september, árið 2019. Íbúðin er á annarri hæð hússins.
Greint var frá málinu í dagbók lögreglu á sínum tíma en lögregla kom á vettvang og handtók Jón Rúnar. Var hann úrskurðaður í mánaðarlangt gæsluvarðhald. Hann var á skilorði er atvikið átti sér stað. Jón Rúnar er vélfræðingur að mennt.
Konan slasaðist alvarlega en var ekki í lífshættu. Hún fékk heilahristing, blæðingar og bólgur undir húð í andliti, skurði yfir kjálka vinstra megin, brot á tveimur stöðum í neðri kjálka, brot í kinnholu í efri kjálka, brotnar tennur og brot á mjaðmabeini.
Þess er krafist að Jón Rúnar verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Konan gerir einkaréttarkröfu á Rúnar um skaðabætur upp á rúmlega sjö og hálfa milljón króna.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur næstkomandi þriðjudag, þann 1. september.