Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður sem nú starfar hjá Samherja, er sagður hafa áreitt fjölmiðlamanninn Helga Seljan mánuðum saman. Áreitnin á að hafa byrjað í kjölfar umfjöllunar Kveiks og Stundarinnar um Samherjamálið svokallaða, síðastliðinn nóvember.
Kjarninn greinir frá þessu í dag, en þar kemur fram að Jón Óttar hafi setið fyrir Helga á Kaffifélaginu, þar sem hann er tíður gestur, auk þess sem hann hafi ítrekað sent honum skilaboð í gegnum SMS eða Facebook. Helgi sagði í samtali við Kjarnann að hann teldi tilganginn með hegðun Jóns líklega vera að hræða eða ógna.
Þá birtir Kjarninn skáskot af meintum samskiptum Helga og Jóns, til dæmis þessi: „Til hamingju Sjáumst fljótt,“ þegar að Helgi vann til Blaðamannaverðlaunanna. Þá má einnig sjá skilaboðin: „Hræsnin í ykkur. En takk fyrir góðar stundir á kaffihúsi góða og gáfaða fólksins. Kem ekki aftur þangað. Þarf þess ekki.“
Helgi segist ekki hafa áttað sig á því að Jón Óttar væri starfsmaður Samherja. Honum hafi þó fundist hegðun hans óþægileg fyrir fólkið í kring um sig og að Jón Óttar hefði getað reynt að koma skilaboðum sínum til skila á annan hátt. „Mikið vona ég að þú vandir þig í framtíðinni,“ sagði Jón meðal annars. „Dómgreindarleysi þitt er svakalegt! Morgundagurinn verður erfiður trúðu mér. Þetta er sorglegt. Jóhannes Stefánsson plataði þig upp úr skónum.“
Kjarninn á einnig að hafa náð í Jón Óttar sem sagðist ekki vilja tjá sig við blaðamenn Kjarnans og skellti á. „Já heyrðu, ég tala ekki við blaðamenn á Kjarnanum. Bless.“
DV reyndi að ná tali af Jóni. Jón svaraði símanum, sagðist ekki heyra í blaðamanni og skellti síðan á. Þegar blaðamaður reyndi að hringja aftur í Jón þá náðist ekki lengur í símann hans, svo virðist vera sem hann hafi slökkt á símanum.