„Okkur var tjáð að svona gerðist kannski tvisvar á ári og að þetta hafi í raun bara verið hrein óheppni. En undanfarið hafa runnið á mig tvær grímur hvað varðar trúverðugleika þessara lækna sem ræddu við okkur. Mér virðist að eitthvað hafi gengið á þarna undanfarið,“ segir Emilía Ásrún Gunnsteinsdóttir, en hundur hennar dó í sumar eftir aðgerð á Dýraspítalanum í Víðidal, aðgerð sem taldist minniháttar.
DV fjallaði á þriðjudag um það í tveimur fréttum að smáhundar hefðu drepist með óeðlilegum hætti eftir einfaldar aðgerðir á Dýraspítalanum í Víðidal. Í umræðum á samfélagsmiðlum hefur stigið fram fólk sem vitnar um fleiri slík tilvik. Það skal þó áréttað að DV veit fyrir víst aðeins um þau tvö tilvik sem fjallað var um í þessum fréttum. Bæði eru frá því í þessum mánuði. Dýralæknir á spítalanum sem DV ræddi við á þriðjudag hefur þegar viðurkennt mistök í öðru málinu en þar var hundi ávísað allt of stórum skammti af verkjalyfjum eftir aðgerð og voru fyrirmælin um lyfjagjöf til aðstoðarmanns dýralæknisins ekki skrifleg, sem þykir ámælisvert. Grunur leikur á að hið sama hafi átt sér stað í síðara tilvikinu sem DV greindi frá á þriðjudag. Báðir þessir hundar gengust undir tannhreinsun og tanntökuaðgerð. Þeir voru ungir, frískir og orkumiklir og það síðasta sem eigendurnir áttu von á fyrir aðgerðirnar var að þær myndu valda dauða dýranna.
Hundur Emilíu var tíu ára gamall Chihuahua-hundur sem var mjög frískur og hraustur þrátt fyrir nokkuð háan aldur. Atvikið átti sér stað þann 8. júlí síðastliðinn og hundurinn drapst tveimur klukkustundum eftir aðgerð.
„Hann var með steina í þvagblöðrunni. Þær sögðu að þetta væri smávægileg aðgerð og þetta ætti ekki að vera mikið mál. Þetta var samt nauðsynleg aðgerð, það þurfti að fjarlægja steinana,“ segir Emilía, en henni leist ekkert á ástandið á dýrinu eftir aðgerðina og taldi óráðlegt að fara með það heim.
„Þær sögðu bara nei nei, það væri allt í góðu. Hann gæti farið heim. Tveimur tímum seinna var hann dáinn. Ég fékk nánast taugafáll. Enn þann dag í dag segi ég í sífellu við sjálfa mig: Þetta átti ekki að gerast – þetta átti ekki að gerast!“
Emilía þáði ekki krufningu á hundinum í kjölfarið og veit því ekki dánarorsökina. Henni þótti ógeðfelld tilhugsun að láta kryfja hundinn og á þessum tíma tortryggði hún ekki spítalann, taldi að um óheppni hefði verið að ræða. En við fregnir um meint tíð og óeðlileg dauðsföll hunda undanfarið hefur hún fyllst grunsemdum.
„Mér virðist að upplýsingaflæðið sé ekki í lagi á spítalanum,“ segir Emilía og lætur þess einnig getið að aðgerðin hafi ekki verið ódýr og engin endurgreiðsla hafi verið í boði – þó að peningarnir séu það sem hún var minnst að hugsa um í sorginni og áfallinu eftir dauða hundsins. „Þetta kostaði 120 þúsund krónur. Og hann var dáinn tveimur tímum eftir aðgerð. Það var engin endurgreiðsla í boði.“
Emilía vill samt láta þess getið að fyrir utan þetta hræðilega atvik hafi hún góða reynslu af þjónustu Dýraspítalans í Víðidal. Um það vitna líka margir í umræðum um spítalann á samfélagsmiðlum undanfarið. Ljóst er þó að þar hafa orðið atvik í sumar sem ekki geta talist eðlileg og spítalinn hefur þegar viðurkennt og harmað mistök í einu þeirra.