Stjórnendur Orkuhússins telja brýnt að koma á framfæri að sýnataka vegna Covid-19 fer ekki fram í Orkuhúsinu, eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum. Það rétta er að sýnatökur fara fram að Suðurlandsbraut 34, þar sem Orkuhúsið var áður til húsa.
Í tilkynningu kemur fram að Orkuhúsið hafi flutt alla sína starfsemi í Urðarhvarf 8 í Kópavogi. Orkuhúsið var áður til húsa að Suðurlandsbraut 34 þar sem nú fer fram umrædd sýnataka.
„Vegna rangra frétta í fjölmiðlum þar sem sagt er að sýnataka fari fram í Orkuhúsinu, fara margir á rangan stað og mögulega missa af þeim tíma sem þeir áttu. Það sem verra er að þá leita hingað margir aðilar á dag sem mögulega eru með Covid-19 og eykur það verulega hættuna á að smit berist hingað í hús,“
segir í tilkynningu.