Fréttablaðið skýrir frá þessu. 2,4 milljónir lítra af áfengi seldust í apríl en voru 1,8 milljónir í apríl á síðasta ári. Í maí var aukningin 18,5% og 14,8% í júní. í júlí var aukningin 26,6% en samanburður á milli ára er ekki raunhæfur þar sem verslunarmannahelgarsalan var í júlí á þessu ári en í ágúst á síðasta ári.
Fréttablaðið hefur eftir Víði Sigrúnarsyni, yfirlækni á Vogi, að hann finni fyrir þessu í störfum sínum.
„Fólk fór að vera meira heima í sóttkví, eða að vinna. Þá voru færri hindranir og það fór að drekka meira áfengi. Fólk hefur verið í dagdrykkju jafnvel frá morgni til kvölds og er að koma veikara inn til okkar. Þá er fólk farið að drekka spritt,“
er haft eftir honum.
Curtis P. Snook, sérfræðingur í klínískum eitrunarfræðum á Landspítalanum, sagði að sprittið sem er notað til að verjast COVID-19 faraldrinum innihaldi meira en 80% af etanóli.
„Aðalvandamálið er etanólmagnið, það eykur líkurnar á meðvitundarleysi og uppköstum í lungu. Þetta er mjög sterkt áfengi og margir taka ekki eftir því hvað þetta er sterkt.“