Skjalið sem Ríkisútvarpið byggði Kastljósumfjöllun sína á þann 27. mars 2012 er komið í leitirnar samkvæmt heimasíðu Samherja. Þar kemur einnig fram að ekki er um skýrslu að ræða heldur þriggja blaðsíðna óundirritað og ódagsett vinnuskjal um karfaútflutning án efnislegrar niðurstöðu. Samherji fullyrðir að ekkert í skjalinu styðji þær ásakanir sem settar voru á hendur þeim í umræddum Kastljósþætti.
„Í skjalinu er fjallað um útflutning Samherja á karfa á árunum 2008 og 2009. Þar koma fram upplýsingar um verð á karfa sem Samherji flutti út sem fréttamaður Kastljóss sleppti þegar hann vann þáttinn en þessar upplýsingar ganga alvarlega í berhögg við umfjöllun og niðurstöðu þáttarins,“ segir í tilkynningu Samherja.
Í vinnuskjalinu, sem kemur frá Verðlagsstofu, segja Samherjamenn ekkert staðfesta þær ásakanir sem komu fram í Kastljósþættinum. Þar var Samherji sakaður um að selja karfa á undirverði til dótturfélags síns í Cuxhaven í Þýskalandi.
Uppfært klukkan 14:58
Verðlagsstofa skiptaverðs (VVS) staðfestir að vinnuskjalið hafi komið í leitirnar. „Vinnuskjalið sem ber yfirskriftina: „Greining á sölu á óunnum karfa sem fluttur var til Þýskalands á árunum 2008 og 2009“ var tekið saman af þáverandi starfsmanni VSS og sent úrskurðarnefnd í apríl 2010. Viðkomandi starfsmaður lét af störfum hjá Verðlagsstofu vorið 2010.“
VVS segir að skjalið hafi ekki fundist fyrr en nú vegna þess er að „það var vistað utan hefðbundins skjalakerfis VSS aflögðu gagnadrifi sem núverandi starfsmenn hafa fæstir aðgang að.“