fbpx
Sunnudagur 20.apríl 2025
Fréttir

Margar ásakanir gegn Dýraspítalanum í Víðidal vegna hunda sem dáið hafa eftir aðgerðir

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 25. ágúst 2020 16:42

Samsett mynd DV. Dýraspítalinn í Víðidal og tíkin Poppý

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Facebook-færsla Andra Heimis Vignissonar og frétt DV um mál hans hefur kallað fram margar ásakanir hundaeigenda sem segja að hundar sínir hafi ýmist drepist eða veikst alvarlega í kjölfar tiltölulega einfaldrar aðgerðar á Dýraspítalanum í Víðidal. Um er að ræða tannhreinsun og tanntöku og er dýrið svæft fyrir aðgerðina. Ásakanir eru um að hundarnir hafi fengið of stóran skammt af verkjalyfi eftir aðgerðina, sem ýmist valdi veikindum eða dauða. Tekið skal fram að þetta er ósannað.

Í máli Andra Heimis hefur Dýraspítalinn viðurkennt mistök með eftirfarandi yfirlýsingu:

„Við hörmum að þetta skuli hafa gerst og erum að fara yfir verkferla, þannig að það geti ekki gerst aftur að fyrirmæli um lyfjagjöf séu ekki skrifuð niður,“ sagði dýralæknir sem annaðist tík Andra Heimis. – Fyrirmæli um lyfjagjöf voru ekki  skrifuð niður og virðast munnleg fyrirmæli hafa misskilist. Hraust og ung tík Andra Heimis drapst skömmu eftir inntöku verkjalyfjanna.

Nokkrir aðilar hafa stigið fram og vitnað um svipaða reynslu af samskiptum við Dýraspítalann í Víðidal. DV ræddi við Kristjönu Gylfadóttur, en tíkin hennar Poppý, dó eftir aðgerð þann 14. ágúst. Mynd af Poppy er með þessari frétt.

Poppý var þriggja ára, hraust og orkumikil, að sögn eigandans Kristjönu. Hún fór með tvo hunda í tannhreinsun og tanntökuaðgerð, annar hundurinn veiktist illa eftir aðgerðina og var lengi að ná sér, en Poppý dó. „Hún komst aldrei almennilega til meðvitundar. Ég sagði þeim það, að hún væri meðvitundarlaus. Þær sögðu mér að koma með hana daginn eftir í skoðun. Ég fer með hana heim og á innan við klukkutíma byrjar hún að fá flog. Ég hringi á bráðavaktina en hún dó í fanginu á mér á leiðinni. Ég þurfti að halda á henni af því hún hreyfðist ekki,“ segir Kristjana við DV.

Kristjana bíður eftir krufningu á Poppý áður en hún hugleiðir mögulegar aðgerðir í málinu.

„Ef þetta er eitthvert mynstur þá þarf að stoppa þetta. Þetta er að gerast trekk í trekk og það virðast alltaf vera hundar í minni kantinum sem lenda í þessu,“ segir Kristjana enn fremur, en bæði hún og börn hennar eru í sárum eftir hinn óvænta dauða tíkarinnar.

DV hafði aftur samband við dýralækninn sem gaf yfirlýsingu vegna máls Andra Heimis þar sem mistök voru viðurkennd og hörmuð.

„Ég má ekki tjá mig um einstök mál,“ sagði dýralæknirinn en neitaði því að eitthvert mynstur varðandi dauða hunda í kjölfar verkjalyfjagafar eftir tannaðgerðir væri fyrir hendi. „Við reynum að gera okkar besta í þessum svæfingum, það fylgir áhætta svæfingum en við reynum að lágmarka hana eins og við getum. Við erum að fara í gegnum okkar verkerla varðandi þetta en það er erfitt að segja meira um þetta vegna þess að ég má ekki tjá mig um einstök mál.“

Dýralæknirinn fullyrti jafnframt með áherslu að þau mistök, að skrifa ekki niður lyfjagjöf, væru ekki algeng og ekkert mynstur væri í gangi varðandi það. „Það var einstakt tilfelli og hefur ekki með önnur mál að gera,“ segir hún um mál Andra Heimis.

DV vill enn fremur taka fram að miðillinn hefur engar sannanir fyrir öðrum mögulega óeðlilegum dauðsföllum hunda í kjölfar meðferðar á dýraspítalanum en þessum tveimur málum, en ljóst er að ásakanir um fleiri dularfull dauðsföll eða meint óeðlileg veikinda lítilla hunda eftir svæfingu hafa komið fram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“