Verði frumvarp Ingu Sæland að lögum verður lagt bann við „okri“ í hættuástandi. Embætti Ríkislögreglustjóra verður jafnframt tryggð heimild til þess setja hámarksverð á vissar vörur og að kanna innkaupsverð og álagningu verslana á tilteknum vörum. Hvaða vörur átt er við er ekki tiltekið í frumvarpinu. Þar er einungis talað um „nauðsynjavörur, sóttvarnavörur eða hvers konar vöru eða þjónustu sem stuðlar að vernd gegn yfirvofandi hættu.“
Viðurlög við brotum á lagaákvæðum sem Inga leggur til yrðu sektir, ekki undir 100 þúsund krónum og allt að 10 milljónum, eða fangelsisvist í allt að þrjá mánuði.
Í greinargerð með frumvarpinu skrifar Inga: „Allt frá upphafi heimsfaraldurs kórónuveiru hafa borist fregnir af því að bæði innan og utan lands hafi verð á sóttvarnavörum, grímum, sótthreinsispritti og fleiru hækkað verulega og að óprúttnir aðilar hafi hamstrað til sín slíkar vörur á fyrri stigum faraldursins í gróðavon.“
Vísar Inga þar væntanlega til frétta af verðhækkunum á andlitsgrímum og hamstri á spritti í upphafi Covid-19 faraldursins. Sögusagnir fóru þá á kreik um að heimsskortur yrði á handspritti og gerði skorturinn vart við sig hér á landi um skamma hríð. Sögusagnir um verðhækkanir á andlitsgrímum reyndust að vísu ekki á rökum reistar og hefur verð á þeim farið lækkandi á Íslandi, ef marka má verðlagskannanir sem framkvæmdar hafa verið af hinum ýmsu aðilum. Þannig sagði til dæmis DV frá því að andlitsgrímur eru ódýrastar í Costco og Krambúðinni, en þó var tekið fram í þeirri könnun að mikill munur hafi verið á gæðum grímanna hvers verð var kannað.
Frumvarp Ingu Sæland og Guðmundar Inga Kristjánssonar má nálgast hér.