Meðfylgjandi mynd birtist með frétt á dv.is í desember árið 2019 og sýnir forræðislausan föður mótmæla því fyrir utan bæjarskrifstofur Seltjarnarness að hann hefur ekki fengið umgengnisrétt við dóttur sína. Barnaverndarmál eru viðkvæmur málaflokkur sem erfiður er umfjöllunar í fjölmiðlum, ekki síst vegna persónuverndar, en ástæðan fyrir því að DV greindi frá mótmælastöðu mannsins var sú að hann hefur undir höndum úrskurð Úrskurðarnefndar velferðarmála þess efnis að Fjölskyldunefnd Seltjarnarness eigi að taka mál hans fyrir og hraða afgreiðslu þess eins og kostur er. En Fjölskyldunefndin virðist ekkert hafa aðhafst í máli hans.
Núna, um 8-9 mánuðum síðar, hefur ekkert gerst í máli mannsins. Hann var því mættur aftur fyrir utan bæjarskrifstofur Seltjarnarness í morgun með mótmælaspjald sitt.
Dóttir mannsins, sem er 15 ára gömul, er vistuð utan heimilis í sátt við móður hennar en móðirin fer með forræði stúlkunnar. Nánar tiltekið er dóttirin vistuð á fósturheimili á landsbyggðinni. Maðurinn mótmælir því að hafa ekki umgengni við dótturina og seinagangi Fjölskyldunefndar Seltjarnarness við að úrskurða honum umgengni. Að hans sögn vill hún fyrir alla muni umgangast hann og þau hafa hist í leyni.
„Ég beið í eitt ár eftir að komast á fund hjá sýslumanni, þar sem ég bað umgengnisrétt og samning. Sýslumaður sagði að hún gæti ekki tekið málið fyrir vegna þess að dóttir mín væri í umsjá fjölskyldunefndar. Ég benti henni á að fóstursamningurinn rann út 7. júni og því gæti hún úrskurðað. Hún gaf mér einn mánuð til að fá gögn og afrit af fóstursamningi. Fjölskyldunefndin gaf mér aldrei afrit af gögnum sem sanna að fóstursamningurinn sé útrunninn, þrátt ítrekaðar beiðni frá mér og dóttir um að fá afritið. Við fengum afsakanir um að aðilinn væri í fríi, sem er ósatt, því hún er í sumarfríi núna, og samningurinn væri týndur. Mánuðurinn leið og sýslumaðurinn varð að vísa málinu frá,“ segir maðurinn í samtali við DV.
Svo virðist sem hann mæti þögn og aðgerðaleysi kerfisins þrátt fyrir úrskurð um að Fjölskyldunefnd Seltjarnarness eigi að taka mál hans fyrir.
Þegar maðurinn mótmælti í desember kom lögregla á vettvang og bað hann um að fara af vettvangi. Varð hann við þeirri beiðni.
Að þessu sinni voru viðbrögðin önnur því stjórnandi á staðnum, líklega nýlega settur formaður Fjölskyldunefndar Seltjarnarness, kom út til hans og bauð honum inn til samtals. Óljóst er á þessari stundu hvort sá fundur kemur hreyfingu á mál föðurins.