Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens er ósáttur við það pláss sem fyrirsvarsmenn ferðaþjónustunnar hafa fengið að undanförnu, bæði í umræðunni og í fjölmiðlum. Hann kveðst nú stíga fram sem málsvari þeirra sýnilegu ósýnilegu, þeirra sem starfa við menningu á landinu og hafa orðið illa fyrir barðinu á heimsfaraldrinum. Eins telur hann tíma kominn fyrir samfélagið að einbeita sér að því að komast aftur í rútínu, styrkja sína innviði, fremur en að bjóða hættunni heim með því að láta undan kröfum ferðaþjónustunnar um frekari opnun landamæra á þessum fordæmalausu tímum.
100 prósent tekjufall
„Ástandið er bara búið að vera þannig að frá 16. mars hefur verið nánast 100 prósent tekjufall hjá íslenskum tónlistarmönnum. Tónlistarbransinn er ekki bara þeir sem eru að semja og búa til tónlist heldur líka hljóðfæraleikarar, tæknimenn, tækjaleigur og fleiri. Svo að ógleymdu sviðslistarfólki, leikurum og öllum sem tengjast þessum menningarsviðum. Þarna erum við að tala um gífurlegan fjölda manns.“
Ferðaþjónustan er mikilvæg, það veit Bubbi vel, og margir sem starfa innan hennar eru í afleitri stöðu í dag. Þetta sé þó ekki eini hópurinn á landinu sem sé að fara illa út úr Covid.
„Vandamálið sem við erum að glíma við er að við erum sýnilegur ósýnilegur hópur, ef svo má taka til orða. Við erum nefnilega sýnileg þegar fólk vill af okkur vita, en ósýnileg þegar svona hamfarir skella á því þá kemur bara freka fólkið og tekur sviðið. Við vitum það alveg að ferðamannaiðnaðurinn er mikilvægur, en hann er ekki endirinn og upphafið á neinu.“
Að mati Bubba er mun mikilvægara í dag fyrir samfélagið að horfa inn á við og reyna að koma tannhjólunum innanlands í gang aftur, frekar en að horfa alltaf út á við.
„Það er jafn mikilvægt, og jafn mikil verðmæti fólgin í því að börnin okkar geti farið í skóla og átt góðar stundir og þurfi ekki að vafra um heima hjá sér í áfalli yfir að foreldrar þeirra séu að upplifa kvíða og streitu. Það eina sem við heyrum er þessi mantra um peninga. Það er alltaf þessi mantra: „Þetta er svo mikilvægt, þetta er svo mikilvægt“, en innri strúktúr samfélagsins okkar er líka mikilvægur . Það er mikilvægt að fólk haldi geðheilsu, það er miklu mikilvægara að heilbrigðiskerfið sé í lagi, það er mikilvægt að menningin fái að starfa, að fólki geti farið á tónleika, í leikhús og þrifist innan þess geira í samfélaginu.“
Búin að reyna þeirra leið
Bendir Bubbi á að ferðaþjónustan hafi fengið sínu fram í sumar. Takmarkanir voru minnkaðar á landamærum og ferðamenn streymdu til landsins. Enn fremur hafi þjóðin ákveðið að koma ferðaþjónustunni til hjálpar með því að ferðast innanlands, átak sem hafi gengið vonum framar.
„Við fórum öll um landið og eyddum peningum, milljarðar streymdu inn. En þá komu talsmenn ferðaþjónustunnar og sögðu : „Já, þetta er nú allt í lagi, en ekki nóg og mun ekki bjarga okkur“. Ég er þreyttur á því að þetta fólk fái fyrstu frétt í fréttatímum, forsíður, heilsíður, á meðan þúsundir manna eru að glíma við sömu hluti.
Nú eru þeir búnir að fá sinn tíma og nú er bara búið að ákveða að herða alla skimun og gæslu á landamærum sem þýðir þá að mögulega fái samfélagið okkar núna tækifæri til að komast af stað aftur.“
Bubbi segir að sjálfur sé hann á heiðurslaunum Alþingis og blessunarlega ekki í slæmri stöðu eins og margir kollegar hans. Hins vegar þurfi einhver að stíga fram.
„Það bara þorir enginn að stíga fram vegna þess að menn eru svo hræddir við að fá holskefluna yfir sig. Tónlistarbransinn eins og hann leggur sig er á hliðinni. Hann er búinn að vera tekjulaus, og þá er ég að tala um núll krónur, í sex mánuði. Það er hálft ár.“
Á mörgum heimilum sé staðan ekki góð.
„Þú getur ímyndað þér hvernig ástandið er heima hjá íslenskum tónlistarmönnum sem að eiga allt sitt lifibrauð undir því að þeir geti spilað vegna þess að ekki eru plötur að seljast eða Spotify að gefa þeim tekjur. Það eina sem er að gefa þeim tekjur er það að þeir geta farið á svið, sungið og spilað. Og farið í brúðkaup, og afmæli og jarðarfarir. Þetta er tekjulindin þeirra og það er búið að strika hana út. Og núna er möguleiki að innri strúktúrinn sé að fara í einhvern nýjan fasa og við höfum möguleika á að þessi bransi geti rétt sig af.
Allra augu hafi verið undanfarið á ferðaþjónsutunni, en tónlistarmenn – hinir sýnilegu ósýnilegu – þeir virðist ekki vera til í umræðunni.
„Það hefur lítið sem ekkert verið gert eða stigið inn þar heldur og menn hafa ekki verið mikið að garga. Það eru bara allir sem hugsa: „Við tökum þetta á okkur, þetta mun lagast. En svo kemur annað áfallið og þá má segja að þráðurinn styttist. Ég er kannski sá sem bara stígur fram og segir að ég sé kominn með nóg af því að ferðamannaiðnaðurinn fái alltaf fyrstu frétt í báðum fréttatímum.“
Vill Bubbi þó taka skýrt fram að hann hafi samúð með ferðamannaiðnaðinum og þeim sem þar starfa. Það sé þó ekki eini geirinn sem glími við slíkt. Allt landið sé að taka skellinn og taki hann saman. Sumir verr en aðrir. Ferðaþjónustan muni rétta úr kútnum að endingu, en Íslend rís hvorki né fellur með ferðaþjónustunni.
„Ég er kominn með nóg af freka karlinum sem segir: „Það er bara eitt sem er í gangi í landinu og það er ferðamannaiðnaðurinn.“
Bubbi segir að það virðist hafa átt sér stað vitundarvakning í samfélaginu undanfarið og fólk virðist almennt gera sér grein fyrir mikilvægi menningar og sjái hvernig menningin umlykur allt.
„Menning er ekki bara á 17. júní og á tyllidögum. Menningin er alla daga ársins, alls staðar, einhvers staðar, út um allt. Þá er ég að tala um menningu í hinu stóra samhengi en ekki einhverja einangraða hagsmunagæslu fyrir íslenska tónlistariðnaðinn. Hvers vegna fær ferðaiðnaðurinn þetta gígantíska pláss og þessa rödd, dag eftir dag eftir dag? Hvers vegna er ekki talað við Siggu og Jonna sem eru búin að missa allt, hvort sem þau eru kennarar eða verkamenn? Við erum öll í þessum pakka. Þetta er ekki bara ferðaiðnaðurinn.“