Átta starfsmenn á leikskólanum Ægisborg í Reykjavík hafa verið sendir í tveggja vikna sóttkví. RÚV greinir frá.
Fram kemur að enn hafi þó ekkert smit greinst á leikskólanum. Ægisborg er fjögurra deilda leikskóli við Ægissíðu en þar dvelja rúmlega 80 börn á fjórum deildum.
Á dögunum greindi DV frá því að COVID-19 smit hefði greinst hjá kennara við Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík og starfsfólk verði í sóttkví til 7. september.
Síðastliðinn fimmtudag greindist barn á leikskólanum Hálsaskógi í Breiðholti með virkt Covid-19 smit. Sú deild leikskólans þar sem smitið kom upp var í kjölfarið send í sóttkví í 14 daga.
Síðastliðinn laugardag greindi DV síðan frá því að upp hefði Covid-19 smit hjá starfsmanni Álftamýrarskóla og að starfsmenn skólans hafi verið sendir í sóttkví til 4. september nk.
Þá voru allir starfsmenn og nemendur á Huldubergi í Mosfellsbæ sendir í sóttkví í vikunni eftir að smit kom upp á leikskólanum.