Þetta hefur Morgunblaðið eftir Mörtu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Alþjóðlegra bifreiðatrygginga á Íslandi. Hún sagði einnig að tjón af völdum ótryggðra ökutækja nemi tugum milljóna á ári. Haft er eftir Mörtu að leiða megi líkur að því að fjöldi ótryggðra ökutækja í umferðinni sé í samræmi við efnahagsástandið hverju sinni. Því megi búast við fjölgun ótryggðra ökutækja á næstunni.
Ef ótryggt ökutæki lendir í tjóni lendir sá kostnaður á þeim sem standa skil á tryggingagreiðslum sínum þar sem tryggingafélögum er skylt að ábyrgjast slík tjón. Það eru Alþjóðlegar bifreiðatryggingar sem sjá um að gera upp kostnað vegna tjóna ótryggðra ökutækja og reyna síðan að sækja kostnaðinn til ökumanns og skráðs eiganda.
Það er lögreglan sem sinnir því að taka skráningarnúmer af ótryggðum ökutækjum og hefur Morgunblaðið eftir Ásgeiri Þór Ásgeirssyni, yfirlögregluþjóni, að eftirlit með ótryggðum ökutækjum sé hluti af almennu eftirliti lögreglunnar. Hann sagði að lögreglan vilji gjarnan nota myndavélar til að bæta eftirlitið og hafi tilraunir verið gerðar með það en allt sé þetta á hönnunarstigi.