Verið er að vinna að úrræði fyrir börn í þeim skólum í Reykjavíkurborg þar sem skólastarf frestast til 4. september vegna smits sem upp kom um helgina. Samkvæmt upplýsingum frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar er verið að vinna í ráðningum á starfsfólki fyrir frístundaheimili skólanna til að hægt sé að starfrækja þau fyrir hádegi þar til skólahald hefst. Ráðningar ganga vel að sögn starfsmanns hjá upplýsingasviði Reykjavíkurborgar.
Um helgina var sagt frá smitum sem upp komu í Álftamýrarskóla, Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík og Hvassaleitisskóla.
Komið hefur fram í tilkynningu frá borginni að starfsemi frístundaheimilanna raskast ekki vegna þeirra smita sem komið hafa upp. Í einkareknum skóla líkt og barnaskóla Hjallastefnunnar er hins vegar allt frístundastarf lokað nema fyrir börn í forgangi það er að segja börn starfsfólks í framvarðarsveit (eru á forgangslista yfirvalda), sem stendur.
Hvorki var hægt að staðfesta hvort, né hvenær, úrræðið verður ljóst í skólum á vegum Reykjavíkurborgar. Í samtali við skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar kom fram að kennsla í skólunum sem um ræðir átti að hefjast um miðja viku. Má því búast við að þetta liggi fyrir á næstu dögum. Að sögn starfsmanns hjá upplýsingadeild Reykjavíkurborgar, verður ekki hægt að lofa öllum börnum plássi í úrræðinu. Yngstu börnin munu ganga fyrir.