Mikið fór fyrir þeim fréttum um helgina að aðdáandi Kára Stefánssonar forstjóra Íslenskrar Erfðagreiningar hefði látið flúra andlitsmynd af honum á fótlegg sinn. Hinir ýmsu aðilar hafa látið álit sitt á gjörningnum í ljós en Kári sjálfur hefur lýst því áður yfir að hann sé lítið fyrir að upphefja sjálfan sig og finnst það fáránlegt að vísað sé í sig sem tískufyrirmynd og þjóðargersemi.
Konan sem fékk sér flúrið er mikill aðdáandi Kára og leitaði til eiginkonu frænda síns, listakonunnar og húðflúrarans Ólafíu Kristjánsdóttur. Ólafía og eiginmaður hennar Andri eiga og reka húðflúrstofuna Immortal á Akranesi. Ólafía þykir ákaflega fær listakona og hefur starfað sem flúrari í tæp sex ár.
Fyrirsætan Sólveig Káradóttir, dóttir Kára hefur augljóslega húmor fyrir húðflúrinu og skrifar undir mynd af því á Instagramsíðu Ólafíu húðflúrara:
„Djöfull flott! En sem dóttir hans þá bið ég um að þið bætið ekki við egóið of mikið“
Sóla eins og hún er kölluð, setur broskarl við og bætir við að það eina sem hún vilji setja út á myndina er að hann sé ekki alveg með svona mikið kartöflunef.
Ólafía segir það líta þannig út vegna skygginga sem muni jafna sig svo myndin verði að lokum eins fögur og Kári sjálfur.
Mynd sem útskýrir skygginguna má sjá hér að neðan en þar er mynd af húðflúrinu og ljósmynd sem notuð var við gerð þess, skeytt saman.