Sérsveit ríkislögreglustjóra og sprengjusérfræðingar voru meðal þeirra sem brugðust við í máli sprengju í Heiðmörk sem sprakk í höndum manns. Maðurinn er stórslasaður en Vísir greindi frá því fyrr í dag að sprengjan hafi rifið af hluta handleggs mannsins. Er þar haft eftir Skúla Jónssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að maðurinn hafi sjálfur borið eld að flugeldinum.
Segir í Facebook færslu ríkislögreglustjóra að sprengjusérfræðingarnir voru sendir á staðinn til þess að tryggja vettvang, en þá hafi komið í ljós að annar ósprunginn flugeldur væri á staðnum. Sprengjusérfræðingar eyddu þeim flugeldi með sérútbúnum búnaði til sprengjueyðingar. Má sjá myndir hér að neðan af aðgerðinni.
Í færslu sinni varar Ríkislögreglustjóri almenning við að eiga við sprengjur eða torkennilega hluti sem á vegi þeirra kann að verða. Í þeim tilfellum sem fólk gengur fram á slíkt eigi það að tilkynna það til lögreglu í síma 112. Enn fremur biðlar Ríkislögreglustjóri til foreldra eða forráðamanna barna og unglinga að ræða þessi mál við börnin sín.