Mygla hefur komið upp í Skógarás Heilsuleikskóla í Reykjanesbæ. Skólinn er að hluta til í nýju húsnæði en myglan kom upp í eldri hluta húsnæðisins. Athugun var gerð eftir ábendingar frá starfsfólki og myglan fannst eftir útttekt verkfræðifyrirtækisins Mannvits. Í bréfi til foreldra nemenda við skólann segir:
„Síðastliðinn júlí var framkvæmd skoðun og sýnataka í tveimur skrifstofum í húsnæði Skógarás (eldri hluta hússins) m.t.t. loftgæða og hugsanlegra raka- og mygluskemmda. Verkfræðistofan Mannvit hefur víðtæka reynslu við úttekt loftgæða í byggingum og var fengin til að framkvæma skoðunina á þessum rýmum.
Niðurstöður skoðunarinnar eru að rýmin líta almennt vel út en fara þarf í viðhaldsframkvæmdir á annarri skrifstofunni. Þar fundust vísbendingar um örveruvöxt undir gólfdúk á afmörkuðu svæði, en farið verður í að laga þær skemmdir strax. Skrifstofunni verður lokað á meðan viðgerð stendur og ítarlegu verklagi fylgt svo að mengun dreifir sér ekki í önnur rými skólans.
Eftir frekari ábendingar frá starfsfólki skólans núna í ágúst var ákveðið að framkvæma frekari skoðun og sýnatöku á völdum stöðum í skólanum og munu þær niðurstöður liggja fyrir í byrjun september. Niðurstöður verða kynntar fyrir starfsfólki og foreldrum um leið og þær liggja fyrir. Samkvæmt sérfræðingum Mannvits ættu þessar skemmdir sem hafa greinst ekki að hafa áhrif á kennslu eða annað starf innan skólans, enda hefur verið gripið til viðeigandi ráðstafanna. Þegar viðgerðum á skemmdum verður lokið, verður strax ráðist í víðtækar hreingerningar og af því loknu verður sýnataka fljótlega endurtekin til að staðfesta hvort viðgerðir og þrif séu fullnægjandi.“
Eins og fram kemur í þessum skrifum heldur skólastarf áfram. DV hefur heimildir fyrir því að veikindi hafi komið upp hjá starfsfólki og nemendum sem grunur leikur á að rakin séu til myglunnar. Tekið skal fram að þetta er ekki staðfest. Guðmundur Pétursson, eigandi fyrirtækisins Skólar ehf. sem rekur skólann, telur þetta ekki vera rétt. Hann er sáttur við framgöngu Reykjanesbæjar í málinu:
„Við höfum verið að vinna þetta með Reykjanesbæ. Þetta kom upp í einu litlu herbergi þarna. Því herbergi var lokað strax. Reykjanesbær á húsnæðið, þeir hafa unnið þetta mjög vel með okkur og skólastjóra,“ segir Guðmundur og vísar að öðru leyti á Reykjanesbæ.
DV hefur heimildir fyrir því að uppruni myglunnar sé í gömlum dúk sem ekki var skipt út þegar húsið var tekið í gegn. Raunar staðfestir ofannefnt bréf til foreldra þetta. Enn fremur hefur DV heimildir fyrir því að einhverjir starfsmenn og nemendur hafi fundið til einkenna sem grunur leiki á að rakin séu til myglunnar. Sumir hafi strítt við veikindi allt frá því skólinn var opnaður fyrir tveimur árum. Ekki liggur fyrir sönnun um að veikindi stafi af myglunni en sterk líkindi.
Eins og áður greinir frá hefur þeim hluta húsnæðisins þar sem myglan fannst í gólfdúk verið lokað. En sami gamli gólfdúkurinn er líka annars staðar í húsnæðinu. Ekki liggur fyrir hvort mygluna er að finna annars staðar en á þessu afmarkaða svæði en beðið er niðurstöðu þeirrar sýnatöku. Kemur niðurstaðan eftir þrjár vikur. Skólastarf heldur hins vegar áfram í óbreyttri mynd.
DV hafði samband við Þóru Sigrúnu Hjaltadóttur, skólastjóra leikskólans. Hún sagðist ekki vilja tjá sig um málið og sagði að það væri ekki á hennar forræði að svara fyrir um þetta mál.
DV sendi fyrirspurn um málið á Helga Arnarson, fræðslustjóra Reykjanesbæjar, og var svar hans eftirfarandi:
„Ég held að óhætt sé að fullyrða að unnið er mjög faglega með mál sem þessi hér hjá okkur í Reykjanesbæ. Unnið er í góðu samstarfi við umhverfissvið bæjarins og sérfræðinga hjá Mannviti. Ég get sent þér ítarlegra svar síðar en hef ekki tök á því akkúrat sem stendur. Við erum að opna nýjan glæsilegan skóla, Stapaskóla í Innri-Njarðvík, sem væri áhugavert fyrir ykkur að kynna ykkur.“
Heilsuleikskólinn Skógarás er einn fimm leikskóla sem fyrirtækið Skólar ehf. rekur. Það var stofnað árið 2000 og er í eigu feðganna Guðmundar Péturssonar og Péturs R. Guðmundssonar. Í skólarekstri fyrirtækisins er lögð áhersla á heilsueflandi skólastarf undir einkunnarorðunum „heilbrigð sál í hraustum líkama,“ eins og segir á heimasíðu fyrirtækisins.