Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer með eftirlit með samkomustöðum í miðbæ nú á meðan sóttvarnarreglur gilda sökum COVID-19. Í nótt voru þrettán staðir teknir til skoðunar og reyndust átta af þeim vera til fyrirmyndar. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar kemur enn fremur fram að þrír samkomustaðir hafi þurft að gera úrbætur á borðaskipan til að virða tveggja metra reglu og á tveimur stöðum hafi aðstæður verið með öllu óviðunandi.
„Of margir voru á stöðunum tveimur og ekki unnt að tryggja tveggja metra reglu. Starfsmönnum var gert að gera víðtækar ráðstafanir vegna þessa tafarlaust; fækka gestum og dreifa þeim betur um svæðið. Skýrslur verða ritaðar á brotin. Þá var einum samkomustað lokað, en sá var með útrunnið rekstrarleyfi.“