Það hefur ekki verið yfir mörgu að gleðjast í atvinnumálum þjóðarinnar síðustu mánuði. Eftir nokkuð mörg ár af velgengni, metkaupmáttaraukningu og stöðugleika á vinnumarkaði fóru að berast fréttir af dularfullri veiru í Wuhan-héraði Kína.
Fyrst var kínverskum landamærum lokað, svo kóreskum, svo japönskum. Ekki leið langur tími þar til allur heimurinn var undir, vitnisburður um smæð heimsins á 21. öld. Á þessum tíma var ferðabransinn hér heima orðinn stærri en sjávarútvegurinn. Í fyrsta sinn áttu fleiri íslenskar fjölskyldur sitt undir að hingað kæmu ferðamenn en að uppsjávarflotinn fyndi loðnu.
Hópuppsagnir fylgdu veirunni. Um 4.000 manns misstu vinnuna í hópuppsögnum um mánaðamótin apríl/maí og þúsund til viðbótar næstu mánaðamót á eftir. Til viðbótar hurfu verkefni hjá þúsundum verktaka, sérstaklega í ferðaþjónustu.
Um svipað leyti fóru aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna ástandsins af stað. Fyrst var hlutabótaleiðin kynnt. Bauðst starfsfólki fyrirtækja þá að fara í skert starfshlutfall hjá fyrirtækjum sínum og skrá sig á hlutabætur hjá Vinnumálastofnun. Meiningin var að hindra „slit á ráðningarsambandi“ starfsfólks og vinnuveitenda. Það virkaði skammt. Þegar ljóst varð að ástandið myndi ekki vara í örfáa mánuði fór ríkið af stað með niðurgreiðslur á greiðslum til starfsfólks á uppsagnarfresti.
Var ríkið þar með farið að niðurgreiða laun starfsfólks hjá einkafyrirtækjum, gegn því að því væri sagt upp. Stangaðist þetta nokkuð bersýnilega á við markmið hlutabótaleiðarinnar og hlaut ríkisstjórnin talsverða gagnrýni frá leiðtogum verkalýðshreyfingarinnar fyrir vikið.
Hin undarlega staða vinnumarkaðarins, þar sem hlutfallslega fleiri verktakar misstu vinnuna og fengu ekki bætur, og margir sem héldu vinnunni fóru á bætur í gegnum hlutabótaleiðina, bjagaði tölfræði Vinnumálastofnunar. „Skakkar“ atvinnuleysistölur fóru að berast og raunatvinnuleysið birtist almenningi ekki fyrr en seinna. Tölur um raunatvinnuleysi ná yfir þá sem eru sannarlega án vinnu og í virkri atvinnuleit, þar eð, þeir vilja og geta unnið en fá ekki vinnu.
Enn vantar margt fólk inn í þær tölur. Til dæmis má vænta þess að þeir sem sagt var upp um mánaðamótin apríl/maí hafi ekki komið inn í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar fyrr en 1. ágúst. Er þá miðað við þriggja mánaða uppsagnarfrest. Þeim þúsund eða svo sem var svo sagt upp í hópuppsögnum mánaðamótin á eftir, júní/júlí, koma svo inn í „kerfið“ 1. september.
Fastlega má gera ráð fyrir því að einhver hluti þessa fólks sem sagt var upp í hópuppsögnum fyrr á árinu hafi verið endurráðinn, en ómögulegt er að segja til um það hve stór hluti það var.
240 þúsund krónur á mann duga ekki
Að sögn Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, eru stóru verkefnin fram undan einmitt atvinnuleysið og atvinnuleysisbótakerfið sem og endurskoðun Lífskjarasamningsins. Ragnar segir að kerfið verði að vera í stakk búið til þess að taka á móti einstaklingum og veita þeim viðunandi framfærslu. „Atvinnuleysisbætur í dag eru einfaldlega of lágar,“ segir Ragnar, „bæturnar verða að duga fyrir mat og húsnæði, og 240 þúsund krónur á mann dugar einfaldlega ekki.“ Tekjutenging atvinnuleysisbóta er enn fremur allt of stutt, segir Ragnar, og huga verður að framlengingu á úrræðum eins og hlutabótaleiðinni. „Þetta eru hlutir sem við erum að vinna að í dag og næstu daga og vikur,“ segir hann.
Hin hliðin á þessum sama peningi er svo staða kjarasamninga á vinnumarkaði. Heilt yfir er hún nokkuð góð. „VR er með þessa stóru kjarasamninga sína klára, en sérkjarasamningarnir líkt og þeir sem gerðir eru við álverin í Straumsvík og á Grundartanga eru enn lausir. Staðan í Straumsvík er auðvitað grafalvarleg og hvort álverið þar haldi áfram í lausu lofti,“ segir Ragnar.
1. september er svo komið að skýrsluskilum forsendunefndar Lífskjarasamnings ASÍ og SA. Nefndinni er ætlað að fara yfir hvort forsendur fyrir samningnum standi. Þrjár meginforsendur eru fyrir því, að sögn Ragnars. Fyrst, að kaupmáttur aukist, að vextir lækki og í þriðja lagi að staðið verði við nokkuð langan lista af loforðum hins opinbera. Ragnar segir að tvö stór atriði í þeim loforðalista hafi verið tímasett og þau séu nú runnin út á tíma. Það er bann við 40 ára verðtryggðum neytendalánum, og að taka húsnæðisliðinn úr vísitölu neysluverðs.
Ef forsendunefnd kemst að þeirri niðurstöðu að forsendur fyrir samningnum séu brostnar hafa aðilar samningsins einn mánuð, septembermánuð, til þess að laga það sem hægt er að laga eða koma með eitthvað nýtt í staðinn. Eða hreinlega að segja upp samningnum, að sögn Ragnars.
Aðspurður hvort hann telji líklegt að samningnum verði sagt upp af öðrum hvorum aðilanum segir Ragnar svo ekki vera. Ragnar er ekki að skafa utan af því þegar hann spáir um afleiðingar þess að segja upp Lífskjarasamningnum. „Ef samningurinn heldur ekki, þá spái ég því að það fari allt upp í háaloft. Það verður þá gríðarlega harður vetur. Þetta veltur allt á Lífskjarasamningnum.“
Hann segir jafnframt að það kæmi honum mjög á óvart ef ríkisstjórn sem kennir sig við stöðugleika ætlar að bera ábyrgð á því að vinnumarkaðurinn fari nánast á hliðina með því að leyfa Lífskjarasamningnum að falla. „Það myndi þá stefna í ein alvarlegustu átök á vinnumarkaði frá upphafi, ef ekki næst að halda samningnum gangandi. Það er það langt á milli aðila núna, að ef við þyrftum að fara aftur að samningaborðinu þá verður staðan bara gríðarlega alvarleg.“
Ragnar bendir á að ótti geti breyst í reiði. „Eins og við sáum í kjölfar bankahrunsins 2008, þá tók það smá tíma fyrir óttann í samfélaginu að breytast í reiði,“ sagði hann og benti á að sú atburðarás gæti allt eins endurtekið sig. „Í dag hefur fólk áhyggjur af afkomu sinni vegna ástandsins, en þegar fram í sækir og ef okkur tekst ekki að tryggja fólki lágmarksafkomu sem dugar því og þegar fólk fer að klára sína uppsagnarfresti og detta á strípaðar atvinnuleysisbætur, þá getur stemningin í samfélaginu breyst mjög hratt til hins verra.“
Ragnar segist gera ráð fyrir því að verkalýðshreyfingin muni fara fram með viðbótarkröfur sem koma þá í staðinn fyrir vanefndir hins opinbera á fyrrnefndum tímasettum loforðum. Mikil ábyrgð sé á herðum verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda að verja þessa samninga.
Í lok síðustu viku sendi Drífa Snædal, formaður ASÍ, frá sér pistil þar sem stiklað var á komandi tímum. Fyrirsögn pistilsins sagði margt: „Í upphafi krefjandi vetrar“. Líkt og hjá Ragnari, var atvinnuleysi og óvissan meginþemað.
Í samtali við blaðamann DV sagði Drífa það „brýnasta verkefni“ að verja störfin í landinu og afkomu fólks. Fjölga þyrfti störfum hjá hinu opinbera, hækka atvinnuleysisbætur strax og koma í veg fyrir frekari niðurskurð hjá hinu opinbera.
Ljóst er á orðum Drífu nú og áður að verkalýðshreyfingin er uggandi yfir aðgerðum Icelandair og stuðningi Samtaka atvinnulífsins í þeim málum. Vísar Drífa þá til þess þegar Icelandair sagði upp öllum flugfreyjum sínum og sagðist hafa hafið viðræður við „annað innlent stéttarfélag flugfreyja“ í kjölfar þess að flugfreyjur felldu samning FFÍ við Icelandair.
Óljóst er til hvaða stéttarfélags var vísað, en telja má víst að það hafi verið Íslenska flugstéttarfélagið, sem samdi nýlega við flugfélagið Play. Drífa segir það „ekki í hendi atvinnurekenda að velja og hafna við hverja þeir semja“ og að „það verður ekki látið viðgangast á íslenskum vinnumarkaði og þó að flugfreyjur hafi gengið frá samningum þá mun þessi „sumargjöf“ elta okkur inn í haustið og lita þau verkefni sem framundan eru.“.