COVID-19 smit hefur greinst hjá íbúa á Hlíf, íbúðum fyrir eldri borgara á Ísafirði. Nítján íbúar eru vegna þessa komnir í sóttkví og eru 54 aðrir íbúar hvattir til að halda kyrru fyrir og fara með ítrustu gát næstu vikur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.
„54 aðrir íbúar bæði á Hlíf 1 og Hlíf 2, hafa verið hvattir til að halda kyrru fyrir, fara að ítrustu gát næstu vikur, viðhafa smitgát og fylgjast sérstaklega með mögulegum einkennum,“ segir í tilkynningu.
Búið er að hringja í alla íbúa og sótthreinsa sameiginlega fleti. Samkvæmt tilkynningu er gestum og aðstandendum íbúa ekki heimill aðgangur að Hlíf fyrst um sinn.
„Hægt verður að koma nauðsynjum til íbúa með milligöngu starfsmanns á vegum Ísafjarðarbæjar. Breytingar á þessu fyrirkomulagi verða tilkynntar sérstaklega.
Talsverðar sóttvarnarráðstafanir hafa verið viðhafðar á Hlíf upp á síðkastið, meðal annars með hólfaskiptingu á matmálstímum. Þetta takmarkar verulega fjölda þeirra sem fara þurfa í sóttkví.
Ekki er ljóst hvaðan smitið barst en unnið verður áfram að smitrakningu. Smitvarnaaðgerðir verða endurmetnar eftir því sem smitrakningu vindur fram.
Öllum sem finna til minnstu einkenna er hér eftir sem hingað til bent á að hafa samband við heilsugæsluna í síma 450 4500 og fara í sýnatöku.“