Stjórnendur JB byggingar. verktakafyrirtækis sem stofnað var árið 2015 og hefur verið afskráð, hafa verið ákærðir fyrir skattsvik og peningaþvætti. Mennirnir tveir, annar 37 ára og hinn þrítugur, eru sakaðir um að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti fyrir meirihluta rekstrarársins 2016 og hluta ársins 2017, fyrir samtals rúmlega 16 milljónir króna.
Þá eru þeir sakaðir um að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu skatta af launum og launatengdum gjöldum fyrir samtals um 40 milljónir króna.
Ennfremur eru þeir sakaðir um peningaþvætti fyrir að hafa aflað JB byggingar ávinnings af brotum og eftir atvikum sjálfum sér, hvor um sig fyrir rúmlega 36 milljónir króna.
Þess er krafist að mennirnir verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 27. ágúst næstkomandi.