fbpx
Sunnudagur 20.apríl 2025
Fréttir

Samherji með nýja tilkynningu – Skjalið úr Kastljósi finnst ekki

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 20. ágúst 2020 14:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samherji hefur birt nýja yfirlýsingu sem varðar skjal eða skýrslu sem notast var við í Kastljóssþætti árið 2012 þar sem fyrirtækið var vænt um að selja karfa á undirverði til dótturfélags síns í Cuxhaven í Þýskalandi. Eins og frægt varð fyrir skömmu sýndi Samherji stuttan fréttaskýringaþátt þar sem Helgi Seljan, rannsóknarblaðamaður hjá RÚV, var bæði sakaður um að hafa notast við skýrslu sem ekki er til, sem og að hafa átt við þá skýrslu.

Kom síðar á daginn, samkvæmt yfirlýsingu frá Verðlagsstofu Skiptaverðs, að Helgi hafði notast við gögn sem stofnunin hafði tekið saman og sent til úrskurðarnefndar sjómann og útvegsmanna. Samherji hefur kallað eftir því að þessi gögn verði birt. Segir í tilkynningu á heimasíðu Samherja að samkvæmt svörum frá Ríkisútvarpinu finnist gögnin ekki.

Segir Samherji þetta sýna að þegar útvarpsstjóri og fréttastjóri RÚV fordæmdu þátt Samherja hafi þau ekki haft undir höndum þau gögn sem þau byggðu fordæmingu sína á. Tilkynningin er eftirfarandi:

„Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri, segir í svari við erindi Samherja að skjal það sem Kastljós byggði umfjöllun sína á hinn 27. mars 2012 sé ekki í vörslum Ríkisútvarpsins. Af þessu má ljóst vera að þegar útvarpsstjóri og fréttastjóri fordæmdu þátt Samherja í síðustu viku höfðu þau ekki kynnt sér málið, því þau höfðu ekki gögnin undir höndum.

Hinn 12. ágúst síðastliðinn sendi Arnar Þór Stefánsson, lögmaður, erindi til Ríkisútvarpsins fyrir hönd Samherja. Þar var þess óskað að „skýrsla“ sú sem Kastljós byggði umfjöllun sína á og sögð var stafa frá Verðlagsstofu skiptaverðs yrði afhent Samherja nú þegar fyrir lægju yfirlýsingar Ríkisútvarpsins og starfsmanna þess um að skjalið væri sannarlega til.

Útvarpsstjóri svaraði erindinu í gær. Þar segir: „RÚV hefur ekki umrætt skjal í fórum sínum lengur. Það var notað við vinnslu Kastljóssþáttar árið 2012 og afhent Seðlabankanum að hans ósk í febrúar það ár.“ Þá segir útvarpstjóri að eðlilegast sé að „beina beiðni um afhendingu skjalsins til Verðlagsstofu skiptaverðs eða eftir atvikum Seðlabanka Íslands.“

Svar útvarpsstjóra er athyglisvert fyrir þær sakir að í yfirlýsinu sem Þóra Arnórsdóttir birti hinn 11. ágúst síðastliðinn segir að um hafi verið að ræða skýrslu „sem var 3 blaðsíður og undirrituð af þáverandi forstjóra Verðlagsstofu skiptaverðs“ og að skýrslan hafi sannarlega verið „borin undir Seðlabankann, sem óskaði eftir og fékk afrit af henni.“

Svar Stefáns Eiríkssonar, útvarpstjóra, varpar ljósi á þá athugun sem fór fram hjá Ríkisútvarpinu eftir að þáttur Samherja um upphaf Seðlabankamálsins fór í loftið þriðjudaginn 11. ágúst. Í yfirlýsingu útvarpsstjóra og fréttastjóra þann dag var meginfullyrðingu Samherja, um að engin skýrsla hafi verið samin, hafnað. „RÚV hafnar þessu sem röngu,“ sagði þar. Umrædd yfirlýsing var gefin út þremur klukkustundum eftir að þáttur Samherja var sýndur. Svar útvarpsstjóra við erindi lögmanns Samherja bendir til þess að útvarpsstjóri og fréttastjóri hafi í reynd ekki vitað hvort Ríkisútvarpið hefði skýrsluna undir höndum, eða hvers eðlis skýrslan væri, áður en yfirlýsingin var birt. Eru því sterkar vísbendingar um fullyrðingar í yfirlýsingunni hafi verið settar fram án vitneskju um hvort þær væru sannar. Hljóta það að teljast býsna ámælisverð vinnubrögð af hálfu stofnunar sem vinnur í þágu og umboði almennings.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“