fbpx
Sunnudagur 20.apríl 2025
Fréttir

Matthías og Vygantas neita sök – Sagðir hafa framleitt 11 kíló af spítti í Breiðholtinu

Heimir Hannesson
Fimmtudaginn 20. ágúst 2020 13:15

mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Matthías Jón Karlsson og Vygantas Visinskis neituðu báðir sök fyrir héraðsdómi í dag, en þeir eru ákærðir fyrir aðild sína að umfangsmiklu fíkniefnamál. Eru þeir sagðir hafa framleitt rúm 11 kíló af amfetamíni í íbúð að Grýtubakka 6 í Reykjavík í apríl á þessu ári.

Sjá nánar: Matthías Bitcoin-svindlari handtekinn í stórfelldu fíkniefnamáli – Efnin metin á sjötíu milljónir króna

Lögregla handtók mennina í vor og lagði hald á efnin. Einnig var lagt hald á búnað sem tvíeykið er sagt hafa notað við framleiðsluna. Voru aðgerðir lögreglu sagðar umfangsmiklar, en farið var í „fjölda“ húsleita samtímis og mennirnir úrskurðaðir í gæsluvarðhaldi.

Nokkuð þungir dómar hafa fallið á síðustu misserum í málum tengdum amfetamínframleiðslu. Í desember í fyrra hlutu þrír menn sex og sjö ára fangelsisdóma fyrir amfetamín framleiðslu í sumarbústað í Borgarfirði. Fyrr í sumar hlaut Jara Davidsson, ekkja Geira í Goldfinger, þriggja ára fangelsisdóm. Var hún ein af sex sem dæmd voru í því máli og hlutu þau samanlagt 22 ára fangelsisdóm.

Dómar fyrir fíkniefnaframleiðslu mun þyngri en aðrir

Fjallaði DV ítarlega um amfetamínframleiðslu á Íslandi í helgarblaði sínu fyrir skömmu síðan. Þar kom fram að deildar meiningar væru á meðal lögfróðra um hvort réttlætanlegt sé að refsingar í framleiðslumálum amfetamíns séu svo mikið þyngri en til dæmis smygl- eða sölu og dreifingarmál, enda sé um að ræða sama lagaákvæðið og sama refsirammann. Í ákvæðinu stendur að sá sem framleiðir, flytur inn eða út, afhendir eða hefur í vörslu sinni efnin skal sæta „sömu refsingu“ og sá sem þau selur.

Sjá nánar: Flókin amfetamínframleiðsla ryður sér til rúms á Íslandi

Þeir Matthías og Vygantas eru nú ákærðir fyrir brot á einmitt þessu ákvæði, 173. gr. almennra hegningarlaga. Ákvæðið er í heild sinni:

Hver, sem andstætt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni lætur mörgum mönnum í té ávana- og fíkniefni eða afhendir þau gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt, skal sæta fangelsi allt að 12 árum.
Sömu refsingu skal sá sæta, sem gegn ákvæðum nefndra laga framleiðir, býr til, flytur inn, flytur út, kaupir, lætur af hendi, tekur við eða hefur í vörslum sínum ávana- og fíkniefni í því skyni að afhenda þau á þann hátt, sem greint er í 1. mgr.

Af framangreindu að dæma er ljóst að Matthías og Vygantas mega eiga von á nokkuð þungum fangelsisdómi, verði þeir fundnir sekir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“