Lögreglan á Suðurnesjum hefur sent frá sér tilkynningu vegna beinafundar í Skógfellahrauni, nálægt Grindavík. DV greindi frá því í gær að Ágúst Ísfeld ók á fjórhóli sínu í fyrrakvöld fram á bein sem hann taldi að gætu verið mannabein. Tilkynnti hann fundinn til lögreglunnar.
Lögreglan veitti DV í dag upplýsingar um að beinin væru ekki mannabein en enn liggur ekki fyrir út hvaða dýri beinin eru. Tilkynning lögreglunnar um málið er eftirfarandi:
„Í vikunni barst lögreglu tilkynning um bein sem fundust í Skógfellahrauni. Lögregla óskaði eftir aðstoð frá Björgunarsveitinni Þorbirni við að komast að beinunum. Þurftum við að notast við fjórhjól til þess að komast yfir úfið hraunið. Skemmst er frá því að segja að bein voru fjarlægð af vettvangi og færð í hendur réttarmeinafræðings sem að svo staðfesti að ekki væri um mannabein að ræða.“