Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms frá því fyrr í mánuðinum yfir manni sem sakaður er um ítrekað ofbeldi gegn sambýliskonu sinni. Manninum hefur verið gert að flytja af heimili sínu og má ekki hafa samband við sambýliskonu sína. Nálgunarbannið gildir fram í febrúar á næsta ári.
Tildrög málsins eru atvik frá aðfaranótt 8. mars í þessu ári en þá barst lögreglu símtal úr símanúmeri konunnar. Enginn var í símanum en heyra mátti konu gráta og samtal konu og karlmanns. Starfsmaður lögreglunnar sem svaraði í símann taldi að um mögulegt heimilisofbeldi væri að ræða og sendi lögreglubíl á vettvang. Þegar lögreglubíllinn kom á vettvang kom konan hlaupandi út úr húsinu og maðurinn á eftir henni. Við skýrslutöku sagði konan að maðurinn hefði ógnað sér með hnífi og síðar skærum. Henni hafði tekist að hringja í neyðarlínuna en ekki getað talað í símann.
Heimilið hafði verið undir eftirliti félagsþjónustu um nokkurt skeið vegna gruns um ítrekað ofbeldi mannsins gegn konunni. Barnaverndarnefnd hafði einnig afskipti af parinu vegna gruns um heimilisofbeldi. Eftir það mátti starfsmaður barnaverndar þola hótanir af hálfu mannsins.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum úrskurðaði manninn í nálgunarbann þann 6. ágúst. Maðurinn áfrýjaði þeim úrskurði til Héraðsdóms Reykjaness 14. ágúst, sem staðfesti úrskurðinn. Maðurinn áfrýjaði þeim úrskurði til Landsréttar sem staðfesti úrskurð Héraðsdóms þann 18. ágúst.
Maðurinn má ekki koma að heimili konunnar eða vera nálægt því, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus. Honum er bannað að veita henni eftirför, nálgast hana á almannafæri, hringja í hana, senda henni tölvupóst eða setja sig í samband við hana á annan hátt.
Nálgunarbannið gildir til 6. febrúar 2021.