fbpx
Sunnudagur 20.apríl 2025
Fréttir

Engin tengsl á milli nýlegra bílabruna – Ný tækni nýst slökkviliðinu vel í slökkvistarfinu

Heimir Hannesson
Fimmtudaginn 20. ágúst 2020 13:00

mynd/Vilhelm

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Grindavíkurvegi var lokað í gær um stund á meðan slökkvilið Grindavíkur slökkti eld í flutningabíl. Athygli vakti að um var að ræða fjórða óútskýrða bílabrunanna á tæpri viku.

Þann 14. ágúst urðu vegfarendur morgunumferðarinnar á Kringlumýrarbraut varir við eld í Renault Master flutningabíl. Brann bíllinn til kaldra kola eins og sjá má á mynd hér að neðan. 15. ágúst kviknaði í bíl í Árbæ og virtist sem bíllinn hafði verið skilinn eftir í vegkanti. 17. ágúst brann svo jepplingur á Höfðabakka og var bíllinn alelda þegar slökkviliðið kom á vettvang.

mynd/frettabladid.is

Að sögn Rúnars Helgasonar, varðstjóra hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, eru engin tengsl á milli brunanna og ekki verið að skoða þá neitt sérstaklega. „Þetta, eins og svo margt annað, kemur í svona smá gusum hjá okkur. Engar tengingar eða neitt í þessu,“ sagði Rúnar við blaðamann DV.

Margt sem valdið getur bruna í bil

Orsakir bílbruna geta verið margskonar, segir Rúnar. „Þetta getur verið nánast hvað sem er, rafmagnsbilun, eldsneytisleki, sitt lítið af hvoru.“ Hann segir að í bílum sé talsvert af eldsmat, svo að ef eldur nær sér á strik í bifreið þá sé lítið hægt að gera. „Í bílunum er alls konar eldsneyti, smurolía, plast, mikið gúmmí.“ Í diesel bílum er eldsneytisleki algeng orsök segir Rúnar, en diesel olíu nægir mikill hiti, til dæmis af púströri, til þess að brenna. Bensínið þarf yfirleitt neista til, segir hann.

Talsverð umræða spratt upp hér á landi um eld í rafmagnsbílum í kjölfar stórs eldsvoða í Noregi sem talið var að rekja mátti til rafmagnsbíls. Rúnar segir ekkert sem bendir til þess að meiri eldhætta sé af rafmagnsbílum en öðrum og bendir á að ekkert af þessum bílum sem brunnið hafa undanfarið hafi verið rafmagnsbílar. Tók Rúnar þar í sama streng og Félag íslenskra bifreiðareigenda hafði gert í tilkynningu fyrr á árinu.

Rúnar segir þó að ef sjálft batteríið í rafmagnsbíl brennur þá geti losnað talsvert af eiturefnum. Það geti jafnframt verið erfitt að slökkva þannig eld. Þeir eldar kvikni þó nánast undantekningarlaust utandyra og í þeim aðstæðum að auðvelt er að koma sér undan reyknum.

Ný tækni árangursríkari og umhverfisvænni

Rúnar segir að mikil þróun hafi verið í aðferðum og tækni sem slökkvilið beitir á undanförnu ári. Má rekja það til nýrra dælubíla sem slökkviliðið fékk afhenta á síðast ári. „Á þessum bílum erum við með sérstakt slökkviefni og aðeins aðra aðferðafræði. Fyrst og fremst notum við froðu, en nú notum við nýja tækni og betri stúta. Með þeim stútum komumst við betur að, getum dreift froðunni betur svo hún nýtist betur og er umhverfisvænni;“ segir Rúnar.

Í nýja kerfinu sé froðublandan jafnframt talsvert veikari, eða 0,3% froða í stað 3% áður. Þessi veikari blanda er svo sett undir þrýsting og þannig kemur meira loft sem getur betri árangur. „Í bland við nýju stútana,“ segir Rúnar, „sem dreifa froðunni betur er þetta miklu betra. Þetta nýja kerfi er að reynast mjög vel. Það hefur sýnt sig.“

Að sögn Rúnars hefur verið af nógu að taka síðustu daga, til viðbótar við áðurnefnda bílabruna. „Í gær voru 110 sjúkraflutningar og 4 verkefni á dælubíl. En svo er þetta upp og niður,“ sagði Rúnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“