fbpx
Sunnudagur 20.apríl 2025
Fréttir

Stundum slæm umgengni um fatasöfnunargáma Rauða krossins – Matarafgöngum og öðru sorpi hent inn í þá

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 19. ágúst 2020 14:14

Mynd: Anton Brink. Mikilvægt er að skila fötunum í lokuðum pokum en ekki svona.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það kemur fyrir að fatasöfnunargámar Rauða krossins séu fylltir almennu rusli og sorpi, jafnvel matarafgöngum. Þetta staðfestir Þorkell Ingi Ingimarsson, verkstjóri í Fataverkefni Rauða krossins.

Nýlega greindi sjónarvottur að slíkum verksummerkjum frá því í íbúahópi á Facebook. Hann fór með poka af notuðum fötum í söfnunargám á grenndarstöðinni á Seljabraut. Á staðnum var bílstjóri frá Rauða krossinum að tæma gáminn, sem var opinn. Gámurinn var hálffullur af alls konar drasli; timbri, pappír, matarafgöngum og öðru sorpi. „Það er greinilegt að einhverjir sem ekki hafa nennt að ganga frá úrgangi heimilisins á rétta staði hafa notað gáminn sem ruslatunnu. Þvílíkt virðingarleysi við Rauða krossinn,“ ritar þessi maður.

„Þetta er því miður eitthvað sem við þekkjum vel. Þetta er misjafnt, kemur í bylgjum og á sérstaklega við þá gáma þar sem ekki eru ruslagámar nálægt,“ segir Þorkell í viðtali við DV.  Á þetta sérstaklega við um gáma þar sem ekki er gert ráð fyrir heimilissorpi, t.d. í iðnaðarhverfum.

Hann segir leti en ekki kostnað vera ástæðuna fyrir þessu. Segir hann að venjulegt heimilissorp, pappi og jafnvel flöskur lendi í gámunum, jafnvel þó að föskugámur sé við hliðina. „Þannig að það er allur gangur á þessu. Heilt yfir er þetta í lagi en svona lagað er samt óþarflega algengt,“ segir Þorkell en hann lenti síðast í því fyrr í dag að opna gám þar sem í voru matarafgangar.

„Það eru ekki margir dagar sem við sleppum alveg. Við erum með 119 gáma á okkar svæði sem við erum að tæma í hverri viku og við erum alltaf að fá eitthvert rusl daglega. Þetta er leiðinlegt. Núna er mígandi rigning og þá er vont þegar verið er að setja mikið af lausu í gámana og svo þegar þeir eru opnaðir hrynur allt út.“

Mikilvægt er að setja fatnað og skó til Rauða krossins í lokuðum pokum inn í söfnunargámana.

„Það er allt handtýnt úr gámunum þannig að við þurfum að meðhöndla allt sem er í þeim, hvort sem það eru þessir stöku söfnunargámar eða stóru 20 feta gámarnir sem eru á endurvinnslustöðvunum. Þetta getur verið mikil fyrirhöfn og það eru dæmi um að við séum að tefjast í 30-40 mínútur bara út af því hve illa er gengið um þá, það hefur þá áhrif á restina af deginum, hvað mikið við náum að taka þann daginn, umgengnin getur því alveg sett þessa daglegu rútínu úr skorðum.“

„Það er rétt að undirstrika að við tökum bara við textil, skó og þess háttar, og allt slíkt sem fer í þessar söfnunargáma viljum við fá í lokuðum pokum. Svo er mikilvægt að skilja ekki poka eftir fyrir utan gáminn, fara frekar í næsta gám eða koma aftur seinna, ef gámurinn er fullur, og í þessu samhengi er rétt að minna aftur á þessa stóru 20 feta gáma á endurvinnslustöðvum Sorpu, sem taka við miklu meira magni.“

Eins og kemur fram á heimasíðu Rauða krossins tekur hann á móti fatnaði um allt land í þar til gerðum gámum.  Rauði krossinn úthlutar einnig fatnaði til einstaklinga sem á þurfa að halda auk þess að selja fatnað í verslunum sínum víðsvegar um landið á góðu verði. Rauði krossinn úthlutar fatnaði til 1.500 einstaklinga á Íslandi á hverju ári en skjólstæðingar Rauða krossins erlendis njóta einnig góðs af fataverkefninu. Fatasöfnun Rauða krossins er eitt mikilvægasta fjáröflunarverkefni Rauða krossins á Íslandi. Afrakstur af söfnuninni fer til reksturs Hjálparsíma Rauða krossins 1717, hluti til verkefna deilda félagsins um land allt og hluti nýtist til hjálparstarfs erlendis.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“