Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, hefur verið færður í starf sérfræðings í málefnum landamæra í dómsmálaráðuneytinu. Tekur flutningurinn gildi um næstu mánaðamót. Er flutningurinn sagður byggja á 36. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þar segir:
Stjórnvald, sem skipað hefur mann í embætti, getur flutt hann úr einu embætti í annað, enda heyri bæði embættin undir það. Enn fremur getur stjórnvald, sem skipað hefur mann í embætti, samþykkt að hann flytjist í annað embætti er lýtur öðru stjórnvaldi, enda óski það stjórnvald eftir því.
Athygli vakti þegar sagt var frá því í fjölmiðlum að Ólafur Helgi yrði sendur til Vestmannaeyja og ætti að taka þar við lausri lögreglustjórastöðu. Var ætlaður flutningur sagður vera liður í tilraun Áslaugar Örnu dómsmálaráðherra til þess að losna við Ólaf Helga úr embætti. Af því varð ekki.
Samkvæmt tilkynningu á vef stjórnarráðsins á flutningurinn að gefa ráðuneytinu og lögreglunni færi á að nýta sér þekkingu Ólafs á sviði landamæravörslu næstu árin.
Grímur Hergeirsson settur lögreglustjóri á Suðurnesjum
Þá hefur ráðherra sett Grím Hergeirsson, staðgengil lögreglustjórans á Suðurlandi, í embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum frá 1. september til 1. nóvember næstkomandi. Embættið verður svo auglýst laust til umsóknar við fyrsta hentugleika.
Styr hefur staðið um lögreglustjórann síðan hann var sagður hafa prentað út klúra texta og fækkað fötum í viðurvist starfsmanna.
Sjá nánar: Sagður hafa prentað út klúran texta og fækkað fötum í viðurvist undirmanna
Ólafur Helgi hefur lengi verið umdeildur og komið að mörgum umdeildum málum. DV tók hneykslismál Ólafs Helga saman árið 2014 í blaðagrein.