fbpx
Fimmtudagur 03.apríl 2025
Fréttir

Dómi í máli Steinbergs gegn ríkinu ekki áfrýjað – Ótrúverðugleiki lögreglumanna stendur

Heimir Hannesson
Miðvikudaginn 19. ágúst 2020 18:00

Steinbergur, tv., og lögmaður hans. Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú liggur fyrir að nýlegur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Steinbergs Finnbogasonar lögmanns gegn ríkinu verður ekki áfrýjað af aðilum málsins til æðri dómstigs. Mun því dómur Héraðsdóms Reykjavíkur standa.

Forsaga málsins er sú að Steinbergur var lögmaður aðila sem til rannsóknar voru hjá embætti héraðssaksóknara vegna meints fjárþvættis. Í febrúarlok 2016 var Steinbergur svo handtekinn á skrifstofu saksóknarans, en þangað hafði hann mætt grunlaus um það sem var í vændum. Taldi hann sig vera að mæta í yfirheyrslu skjólstæðings síns.

Fyrir dómi sagðist Steinbergur hafa verið umkringdur sex eða sjö lögreglumönnum og handjárnaður á gangi skrifstofu héraðssaksóknara. Þaðan var hann færður út í bifreið og ekið að skrifstofu sinni þar sem hann var viðstaddur húsleit lögreglumanna héraðssaksóknara. Húsleitin tók um tvo tíma og var lagt hald á umtalsvert magn gagna og fjármuna auk þess sem tölvugögn voru endurrituð. Um notkun handjárnanna var síðar tekist á fyrir dómi.

Í kjölfar húsleitarinnar var farið að heimili Steinbergs og fjölskyldu hans og húsleit þar framkvæmd. Í lok dags var Steinbergi komið fyrir í fangaklefa í Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg. Sagði Steinbergur fyrir dómi að fyrst þá hafi runnið upp fyrir honum, að málið myndi ekki leysast.

Steinbergur dvaldi í þrjá daga í fangaklefa.

Héraðsdómur sló á putta héraðssaksóknara

Sumarið 2016 úrskurðaði héraðsdómur að héraðssaksóknari og fulltrúar hans hafi gengið of langt í haldlagningu gagna og var þeim gert að eyða umræddum gögnum. Meðal annars voru þar um að ræða gögn sem vörðuðu skjólstæðinga Steinbergs sem til rannsóknar voru hjá embættinu.

19 mánuðum síðar var málið fellt niður. Sagði Björn Þorvaldsson saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara fyrir dómi að svo hafi farið vegna þess að málið væri „óupplýst,“ og „ólíklegt til sakfellingar.“

10 milljóna bótakrafa

Steinbergur höfðaði mál á hendur ríkinu vegna framgöngu saksóknara. Gerði Steinbergur 10 milljóna bótakröfu í málinu. Þar af voru fimm milljónir miskabótakrafa vegna frelsisskerðingu að ósekju og áfallsins sem fylgdi því að hafa stöðu sakbornings í 19 mánuði. Hinar fimm milljónirnar voru skaðabótakrafa vegna tekjutaps sem hann hafði orðið fyrir vegna gæsluvarðhaldsins og óvinnufærni í kjölfar þess.

Dómur í málinu féll í júlí síðastliðnum og var ríkið dæmt til að greiða Steinbergi 1.500.000 krónur vegna málsins. Í niðurstöðu dómsins var það átalið að lögreglan hafi gengið svo harkalega fram gagnvart Steinbergi. Ekki má lesa annað úr niðurstöðu héraðsdóms en að handjárnunin hafi verið ónauðsynleg og að mistök hafi verið gerð hjá lögreglu við ritun lögregluskýrslna.

Vitnisburður lögreglumanna fyrir dómi talinn ótrúverðugur

Raunar má segja að „mistök“ lögreglu gangi lengra en misræmi í lögregluskýrslu, en fjöldi lögreglumanna bar vitni um notkun handjárnanna. Vísuðu þeir ýmist í lögregluskýrsluna röngu, sögðust ekki muna eftir því eða sögðu Steinberg ekki hafa verið handjárnaðan.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að Steinbergur hafi verið handjárnaður og vegur þar þungt framburður tveggja vitna á lögmannsstofu Steinbergs sem segjast hafa séð hann handjárnaðan á meðan á húsleit þar stóð.

Athygli vekur að héraðsdómur skuli taka vitnisburð tveggja skrifstofukvenna um fjögurra ára gamla minningu fram yfir vitnisburð „fjölda“ lögreglumanna og lögregluskýrslu. Lögregluskýrslan er jafnframt eina ritaða heimildin um atburðinn.

Málinu ekki lokið

Þrátt fyrir að málinu verði ekki áfrýjað er því hvergi nærri lokið og fyrir því eru tvær ástæður að sögn Arnars Þórs Stefánssonar, lögmanns Steinbergs.

Hann segir að af lestri dómsins megi ekki annað ráða en að ráðast þurfi í úrbætur á lögum um húsleitir hjá lögmönnum. „Nú þarf löggjafinn með aðkomu réttarfarsnefndar að setja lög eða reglur um það með hvaða hætti framkvæma skuli húsleit á lögmannsstofu. Slíkar reglar eru ekki til í dag og héraðsdómur bendir á í sínum dómi að það vanti,“ segir Arnar.

Arnar bendir á að í úrskurði héraðsdóms frá því 2016 þar sem héraðssaksóknara var gert að eyða haldlögðum gögnum í málinu komi fram að trúnaðarskyldu lögmanna hafi verið með öllu varpa fyrir róða. Sama megi lesa úr niðurstöðu héraðsdóms í máli Steinbergs gegn ríkinu frá því í júlí síðastliðnum. Að óbreyttu er um að ræða allt of víðtækar og takmarkalausar heimildir í lögum,“ segir hann.

Hin ástæðan sé að framganga þeirra starfsmanna héraðssaksóknara verði að hafa einhverjar afleiðingar. Svo miklar aðfinnslur um þeirra störf sé að finna í dómnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Leigubílaharkari kúgaði fé út úr fjölskyldu – „Daginn eftir var bankað upp á hjá honum og þar voru tveir menn að rukka“

Leigubílaharkari kúgaði fé út úr fjölskyldu – „Daginn eftir var bankað upp á hjá honum og þar voru tveir menn að rukka“
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Mótmæla frumvarpi um rekstur líkhúsa – Sé ekkert annað en skattlagning á dánarbú

Mótmæla frumvarpi um rekstur líkhúsa – Sé ekkert annað en skattlagning á dánarbú
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Fá ekki greitt fyrir óunna yfirvinnu úr þrotabúi Skagans 3X

Fá ekki greitt fyrir óunna yfirvinnu úr þrotabúi Skagans 3X
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Fordæma seinagang mennta- og barnamálaráðuneytisins

Fordæma seinagang mennta- og barnamálaráðuneytisins
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Páll telur að enn eigi mikið eftir að gerast

Páll telur að enn eigi mikið eftir að gerast
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Evrópskir hermenn eiga að tryggja að Rússar ráðist ekki á ný á Úkraínu

Evrópskir hermenn eiga að tryggja að Rússar ráðist ekki á ný á Úkraínu