„Þetta gætu verið mannabein, þarna eru rif og hryggjarliðir sem geta ekki verið úr kind, segi ég, því ég hef séð margar kindagrindurnar. Rifin eru nokkuð stór,“ segir Ágúst Ísfeld sem tók meðfylgjandi myndir í Grindavíkurhrauni, nálægt Fagradal, í gær, en hann rak augun í beinin er hann var að rúnta á fjórhjólinu sínu.
Ágúst tilkynnti fundinn til lögreglu og vakti málið mikinn áhuga lögreglunnar. „Ég tilkynnti þetta í gærkvöld og hef ekki heyrt meir. Þeir sögðu mér í gærkvöld að þeir ætluðu með björgunasveitarmönnum þarna upp eftir að kíkja á þetta.“
Ágúst segir að varðstjóri hjá lögreglunni hafi sagt honum í gærkvöld að hann teldi líklegt að þetta væru mannabein. Plastpoki lá yfir beinunum en Ágúst tók pokann af beinunum til að kíkja betur á þau. Segir hann að beinin virðist hafa dreifst nokkuð.
Ekki hefur náðst samband við lögreglu vegna málsins. Með rannsóknina fer Guðmundur Sigurðsson, hjá rannsóknardeild Lögreglustjórans á Suðurnesjum.