Samkvæmt frétt Mannlífs, sem birtist rétt í þessu, ganga sögusagnir þess efnis að athafnamaðurinn Björgólfur Thor Björgólfsson hafi gerst sekur um ósæmilega framgöngu í veiðiferð sem hann fór í 17. júní í Haffjarðará með þeim afleiðingum að honum hafi verið vísað úr ánni.
Með í ferðinni voru meðal annars hinn þekkti knattspyrnumaður David Beckham og leikstjórinn Guy Ritchie en þetta ku vera þeirra fyrsta ferð eftir innilokun vegna sóttvarnarástæðna í júní. Þremenningarnir eru allir búsettir í Bretlandi þar sem lokanir voru mun stífari en hérlendis.
Eftir veiðiferðina spunnust sögusagnir þess efnis að ýmislegt ósæmilegt hafi átt sér stað bak við luktar dyr. Mannlíf leitaði til eiganda Haffjarðarár til að fá staðfestingu á orðrómum og á því að Björgólfur hafi hagað sér með það óviðeigandi hætti að reka hafi þurft hann á dyr ásamt félögum hans. Félagarnir áttu þó ekki að hafa hagað sér ósæmilega, þvert á móti.
Samkvæmt frétt Mannlífs hljómar ein af sögusögnunum þannig að Björgólfur hafi í framhaldi ferðarinnar keypt Haffjarðará til að fá aðgang þar að nýju. Óttar neitaði þessu í samtali við Mannlíf og segir ekkert til í sögusögnunum
„Allar þessar sögur um Björgólf Thor og Haffjarðará eru rangar. Hann hefur verið viðskiptavinur okkur í nokkur ár og ekkert komið upp á,“ hefur Mannlíf eftir Óttari.
Líkt og aðrir fjölmiðlar leitaði DV eftir staðfestingu á þessum orðrómum í nokkurn tíma og sagði Óttar í samtali við ritstjóra að um hugarburð og uppspuna frá rótum væri að ræða.
Ekki dugði það þó til að kveða sögusagnirnar niður sem virðast frá júní hafa orðið nákvæmari og sagðar í meiri smáatriðum.
Blaðamaður DV hitti á Björgólf og spurði hann út í málið. Kvaðst Björgólfur ekki kannast við málið, en varð þó tvísaga þegar hann viðurkenndi að hafa heyrt eitthvað af málinu. Hann sagði það ekkert nýtt að sögusagnir væru á kreiki um sig.
DV hefur staðfestar heimildir fyrir því að aðilar sem skemmta áttu þremenningunum í ánni hafi verið afbókaðir með stuttum fyrirvara og ástæður afbókaninar hafi verið þunnar, var þar borið við Covid. Ritstjóri DV spurði Óttar út í málið sem sagðist ekki kannast við það. Ekkert skemmtanahald hefði fylgt þessum mönnum og ekkert verið öðruvísi en það átti að vera og þeir hafi ekki farið fyrr en áætlað var.
„Ég kannast ekki við neitt skemmtanahald. Það hefur aldrei verið á vegum þessara manna,“ segir Óttar en sem áður segir hefur fengist staðfest að sóst var eftir söngskemmtun í Haffjarðará á þessum tíma.