Metfjöldi tilkynninga um heimilisofbeldi barst lögreglu í maí á þessu ári, en frá árinu 2015 hefur ekki hefur verið tilkynnt um jafn mörg heimilisofbeldismál á landsvísu í maímánuði og í maí 2020. Þetta kemur fram í tilkynningu frá embætti ríkislögreglustjóra.
Heimilisofbeldismál voru 17,6 prósentum fleiri í lok júlí samanborið við sama tíma fyrir ári síðan. Hlutfallið var svo hærra fyrir júní þar sem tilkynntum málum fjölgaði um rúm 20 prósent.
„Fleiri brot hafa átt sér stað í fimm af níu embættum á sama tímabili ársins 2020 heldur en á sama tíma í fyrra. Sú er raunin hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Lögreglunni á Suðurnesjum og hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra, Austurlandi og Vesturlandi“, segir í tilkynningu.
Meðalfjöldi brota á viku árið 2020 eru 19,6 brot samanborið við 16,7 brot í fyrra.
Ekki er víst þó hvort að um fjölgun brota sé að ræða eða hvort að fleiri tilkynni í dag brotin til lögreglu.
„Mjög mikilvægt er að fylgjast með þessari þróun. Þegar meta á hvort um raunbreytingar á fjölda brota hafa verið að ræða eða ekki, þarf að skoða reynslu almennings af brotum samhliða. Slíkt er gert til dæmis með þolendakönnunum sem lögregla gerir árlega í upphafi árs þar sem spurt er um reynslu frá fyrra ári.“