Um klukkan fjögur í nótt tilkynnti maður að hann hefði brotist inn á veitingahús í miðborginni. Hann virðist hafa brotið rúðu og farið inn og náð sér í áfengisflösku sem hann sat og drakk úr þegar lögreglan kom á vettvang. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu.
Síðdegis í gær var maður, sem var í annarlegu ástandi, handtekinn í miðborginni grunaður um þjófnað úr verslun. Hann var kominn í bifreið sína þegar lögreglan kom að versluninni. Röng skráningarnúmer voru á bifreiðinni og voru þau klippt af og bifreiðin flutt af vettvangi með dráttarbifreið. Maðurinn var vistaður í fangageymslu.
Á níunda tímanum í gærkvöldi var kona í annarlegu ástandi handtekinn á Grandagarði. Margar tilkynningar höfðu borist um að konan gengi á miðri akbraut, greiddi ekki fyrir veitingar og fleira. Hún var vistuð í fangageymslu.
Maður var handtekinn á Laugavegi í gærkvöldi. Hann er grunaður um þjófnað og vörslu fíkniefna. Hann var með ferðatöskur og bakpoka sem hann gat ekki gert grein fyrir. Hann var vistaður í fangageymslu. Maður var handtekinn í austurborginni í gærkvöldi eftir að tilkynnt hafði verið um innbrot. Hann er grunaður um innbrotið og var vistaður í fangageymslu.
Um miðnætti var maður handtekinn í miðborginni eftir að hann hafði neitað að greiða fyrir akstur leigubifreiðar. Hann veittist að lögreglumönnum sem komu á vettvang. Maðurinn var vistaður í fangageymslu en vinir hans greiddu leigubílstjóranum fyrir veitta þjónustu.
Um miðnætti var akstur ökumanns stöðvaður í miðborginni eftir að hann hafði ekið tvisvar gegn rauðu ljósi. Hann er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna, vörslu/sölu fíkniefna og fleira. Hann var vistaður í fangageymslu. Farþegi í bifreiðinni var einnig handtekinn, grunaður um vörslu/sölu fíkniefna, brot á vopna- og lyfjalögum og fleira. Hann var vistaður í fangageymslu.
Tveir ökumenn voru handteknir síðdegis í gær grunaðir um að vera undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.