Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu heimsótti 47 veitinga- og samkomustaði í gærkvöldi til að kanna með sóttvarnir og hvernig gengi að virða tveggja metra regluna. Í ljós kom að allflestir voru með sín mál á hreinu. Þeir staðir, sem höfðu áður fengið ábendingar um úrlausnir og betrumbætur, voru búnir að hrinda þeim í framkvæmd.
Á nokkrum stöðum var starfsfólk beðið um að fylgjast betur með á útisvæðum og reykingasvæðum varðandi tveggja metra regluna.
Einn staður hafði ekki gert fullnægjandi ráðstafanir að mati lögreglunnar en bætti úr á meðan lögreglan var á vettvangi.