Á sjötta tímanum í gær reyndi ökumaður að stinga lögregluna af í Hafnarfirði en hann náðist. Hann er grunaður um ölvun við akstur og fleiri umferðarlagabrot.
Síðdegis í gær var persónulegum munum stolið frá starfsmanni í fyrirtæki í Bústaðahverfi. Málið er í rannsókn. Afskipti voru höfð af konu vegna gruns um að hún hefði stolið úr verslun í hverfi 103. Ætluð fíkniefni fundust hjá konunni.
Skömmu fyrir klukkan 19 var ekið á reiðhjólamann í miðborginni. Hann var fluttur á Bráðadeild til skoðunar.
Á tíunda tímanum í gærkvöldi varð umferðaróhapp á Höfðabakka. Tjónvaldur er grunaður um að hafa ekið bifreið undir áhrifum fíkniefna.
Á ellefta tímanum í gærkvöldi var ökumaður handtekinn í miðborginni en hann er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna, án ökuréttinda og vörslu/sölu fíkniefna. Hann var vistaður í fangageymslu.
Á tólfta tímanum var kona handtekin í miðborginni en hún er grunuð um líkamsárás. Hún var vistuð í fangageymslu.
Klukkan eitt í nótt var maður handtekinn í Bústaðahverfi eftir að hann hafi hunsað ítrekuð fyrirmæli lögreglu um að yfirgefa hús þar sem hann var óvelkominn. Hann var vistaður í fangageymslu.
Fjórir ökumenn voru handteknir í gærkvöldi og nótt, grunaðir um að vera undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.