Á mánudag fjallaði DV um færslu almannatengilsins Ólafs Haukssonar í Facebook-hópnum Bakland Ferðaþjónustunnar. Þar fjallaði hann um Kára Stefánsson og Íslenska erfðagreiningu, en honum fannst ósanngjarnt hvernig fyrirtækið hefði boðist til að skima, en síðan dregið boð sitt til baka.
Í gær svaraði Kári færslu Ólafs á Facebook-síðu sinni. Hann sagði að hlutverk almannatengla væri ekki öfundsvert, vegna þess að hlutverk þeirra væri að „leiða mönnum fyrir sjónir þær hliðar á málefnum sem ekki eru auðsæjar“, jafnvel þó að þessar hliðar séu „einfaldlega ekki til“.
„Til dæmis tekur einn þeirra, Ólafur Hauksson það að sér að útskýra fyrir landsmönnum hvernig skapbrestir mínir beri ábyrgð á því að kórónuveiran hafi aftur náð fótfestu á Íslandi.“
Kára grunar að tilfinningar Ólafs spili stórt hlutverk, sérstaklega eftir að Kári lét þá skoðun sína í ljós að mögulega væri besta leiðin til að fyrirbyggja veiruna að loka landinu. Hann segir að þó að ferðaþjónustan sé mikil blessun þá sú hlutir eins og skólasókn barna mikilvægari.
„Einhvern vegin hef ég það á tilfinningunni að Ólafi Haukssyni hafi förlast svolítið í bræði sinni yfir því að ég benti á það í útvarpsþættinum Sprengisandi á sunnudaginn að árangursríkasta leiðin til þess að fyrirbyggja frekari smit væri kannski sú að „loka“ landinu. Það leikur lítill vafi á því að það er rétt mat. Það hangir hins vegar fleira á spítunni en sóttvarnir og þess vegna hélt ég því fram í sama útvarpsþætti að ákvörðunin um það hvernig þessu yrði hagað væri ríkisstjórnar en ekki sóttvarnarlæknis og svo sannarlega ekki mín. Ég lít svo á að kraftmikil ferðaþjónusta væri mikil blessun landinu okkar núna og um framtíð alla eins og hún hefur verið á síðustu árum en ég vil frekar sjá börnin okkar og unglinga sækja skóla á eðlilegan hátt en horfa upp á haltrandi ferðaþjónustu setja líf okkar og heilsu í meiri hættu en brýnasta þörf krefur.“
Kári telur að Ólafi sé í raun sama um staðreyndir og gengur svo langt að segja að það komi sér í raun á óvart að hann hafi ekki sakað Íslenska erfðagreiningu um að „búa til kórónuveiruna og spúa henni yfir íslenskt samfélag“.
„Annars er ekki ólíklegt að Ólafi Haukssyni sé nokk sama um staðreyndir málsins vegna þess að um leið og ég minntist á þann möguleika að það gæti þurft um tíma að stemma stigu við flæði ferðamanna inn í landið var ég orðinn óvinur og eðlilegt og sjálfsagt að snúa því sem ég hef tekið þátt í til þess að stemma stigu við Covid-19 upp í andhverfu sína. Ég er satt að segja dálítið hissa á því að hann hafi ekki sett fram þá kenningu að ég hafði látið Íslenska erfðagreiningu búa til kórónuveiruna og spúa henni yfir íslenskt samfélag til þess eins að skaða ferðaþjónustuna.“
Að lokum segir Kári að Ólafur ætti að hafa í huga að hagsmunir ferðaþjónustunnar séu bundnir því hvernig okkur tekst að bregðast við veirunni.
„Hafðu samt í huga Ólafur Hauksson að langtíma hagsmunir ferðaþjónustunnar eru mjög háðir því að okkur takist að verjast faraldrinum á þann máta að fólkið sem býr í landinu geti lifað nokkuð eðlilegu lífi því endanlega er hlutverk ferðaþjónustunnar ekki að þjóna hagsmunum þeirra sem ferðast hingað heldur þeirra sem búa hér.“
Ólafur hefur nú birt svar sitt til Kára í pistli sem birtist á Vísi í morgun. Þar segir hann að það sé ekki vinsælt að gagnrýna Kára, en hann segir að það liggi fyrir að tilfinningar hans hafi ráðið för þegar að íslensk erfðagreining ákvað að hætta skimun. Þá spyr Ólafur hvort að eitthvað væri að þessum viðbrögðum Kára.
„Það er ekki til vinsælda fallið að gagnrýna Kára Stefánsson. Síst af öllu að atyrða hann fyrir að láta skapsmuni ráða við örlagaríkar ákvarðanir. Enda er Kári vinsæll og veit af því og minnir okkur reglulega á hvað Íslensk erfðagreining hefur varið mörgum milljörðum króna í viðbrögð við kórónuveirunni.
En það liggur fyrir að skapið í Kára réð för þegar hann tilkynnti með viku fyrirvara að hann væri hættur þátttöku í landamæraskimun ferðamanna. Hann sagði að honum þætti stjórnvöld sýna sér virðingarleysi, samskiptin væru skringileg og honum liði eins og boðflennu. Hann vildi losna undan því oki að skima og þess vegna væri miklu auðveldara að hætta því á þeim tímapunkti. Nokkrum vikum áður hafði hann móðgast herfilega út í vanþakklæti heilbrigðisráðherra.
Var eitthvað að þessum viðbrögðum? Mátti Kári ekki yfirgefa samkunduna þegar búið var að móðga hann nógu mikið? Nei, það mátti hann ekki vegna þess að hann hafði sjálfur boðið í partíið. Þegar ákveðið var að hefja skimun ferðamanna treysti Landspítalinn sér til að skima 500 manns á dag. Kári steig þá fram og bauðst til að annast skimun 2.000 manna á dag á landamærunum. Það var þegið með þökkum. Öll áform ferðamanna til og frá landinu miðuðust við þessi 2.000 manna afköst.“
Ólafur segir að afleiðingar þessarar ákvörðunar Íslenskar erfðagreiningar hafi verið þær að nokkur lönd hafi verið undanþegin skimun, og erfitt sé að segja hvort að veiran hafi komið aftur til lands frá þeim löndum. Eitt er þó víst veiran er komin aftur.
Hann segir að kannski finnist einhverjum ósanngjarnt að Ólafur láti Kára heyra það á þennan hátt, en Ólafi finnst að hegðun Kára hafi ekki verið „fullorðins“.
„Veiran er komin á kreik á nýjan leik með tilheyrandi lamandi áhrifum eins og alþjóð veit. Við vitum ekkert hvort fólk sem kom frá öruggu löndunum hafi verið smitað og smitað út frá sér, þar sem það fór ekki í skimun. Fólk frá mörgum öðrum löndum kom í gegnum þessi öruggu lönd, þar á meðal frá Austur-Evrópu. Við þyrftum ekki að búa við þetta óöryggi ef allir hefðu verið skimaðir eins og til stóð frá fyrsta degi. Sóttvarnalæknir hefur ítrekað að hann telji nauðsynlegt að skima alla ferðamenn sem koma til landsins. Það gerist varla nema að fækka þeim sem mega koma eða að Íslensk erfðagreining mæti aftur.
Kannski finnst einhverjum ósanngjarnt að skammast sé út í hinn skarpgáfaða og skapmikla forstjóra ÍE fyrir að bregðast illa við lélegum samskiptum og vanþakklæti stjórnvalda. Það var samt ekki mjög fullorðins af honum að rjúka í burtu frá landamæraskimuninni, síst af öllu þar sem hann bauð sér sjálfur í það samkvæmi. Með tilboði sínu um að skima 2.000 einstaklinga á dag skapaði hann samstundis væntingar sem höfðu áhrif á innlenda sem erlenda ferðamenn, sem sýndi sig í því að nánast daglega fylltu þeir kvótann.
Enginn er að vanmeta þann höfðingsskap sem hinir erlendu eigendur Íslenskrar erfðagreiningar sýna fyrir tilstilli Kára Stefánssonar. Ókeypis skimanir fyrirtækisins eru á heimsmælikvarða og vafalítið hefur það einhverja hagsmuni af söfnun þeirra upplýsinga sem þannig fást. Til lítils væri annars að standa í þessu veseni.“