Samkvæmt nýrri auglýsingu heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem tekur gildi 14. ágúst verða reglur um nálægðartakmörk í framhalds- og háskólum rýmkaðar og sömuleiðis í íþróttum. Helstu tilslakanir eru þær að 2ja metra reglan verður að 1 metra reglu í skólum og snertingar verða leyfðar í íþróttum. Það þýðir að knattspyrnan getur hafist aftur en væntanlega án áhorfenda því ekki er slakað á 100 manna samkomubanni.
Eins metra reglan gildir í framhaldsskólum og háskólum en börn eru eins og áður undanskilin nálægðartakmörkunum. Um íþróttirnar segir í frétt á vef stjórnarráðs:
„Þrátt fyrir meginregluna um 2 metra nálægðartakmörkun verða snertingar heimilar milli íþróttafólks á æfingum og í keppnum. Aftur á móti skal virða 2 metra regluna í búningsklefum og á öðrum svæðum utan keppni og æfinga. Aðrir, meðal annars þjálfarar, starfsmenn og sjálfboðaliðar, skulu ávallt virða 2 metra regluna. Íþrótta- og ólympíusamband Íslands skal setja sérsamböndum sínum nánari reglur í samráði við sóttvarnalækni, meðal annars um einstaklingsbundnar sóttvarnir, sótthreinsun búnaðar, framkvæmd æfinga og keppna.“