Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Óskari S. Reykdalssyni, forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að fækkun tíðni ýmissa fylgikvilla öndunarfærasjúkdóma sé ein af mörgum áhugaverðum afleiðingum faraldursins.
„Það má hiklaust rekja til þeirra sóttvarnaráðstafana sem gripið hefur verið til, til að sporna við kórónaveirunni.“
Er haft eftir honum. Hann sagði það þó vekja ugg að heimsóknum á heilsugæslustöðvar vegna annarra sjúkdóma en COVID-19 fækki.
„Við höfum talsverðar áhyggjur af því og viljum ítreka enn á ný að fólk verður að leita sér aðstoðar ef það kennir sér meins.“
Sagði hann og nefndi einnig að í nágrannalöndunum hafi dregið úr tíðni þess að lungnakrabbamein uppgötvist. Ólíklegt sé að tíðni sjúkdómsins hafi dregist saman, frekar sé að fólk fari ekki eins mikið í greiningar.