Guðmundur Ragnarsson, fyrrverandi formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, staðfesti í samtali við Stundina að hann hafi fengið í hendur þau gögn sem voru grundvöllur umfjöllunar Helga Seljan um meint brot Samherja á gjaldeyrislögum. Frá þessu greinir Stundin.
Samherji birti í morgun myndband á Youtube sem á að vera það fyrsta af nokkrum þar sem heilindi Helga Seljan sem fréttamanns eru dregin í efa. Var hann í myndbandinu sakaður um að hafa átt við gögn, eða hreinlega borið fyrir sig gögnum sem hafi ekki verið til. RÚV og Helgi hafa í yfirlýsingum hafnað þessum ásökunum. Félag fréttamanna hefur sömuleiðis gagnrýnt aðför Samherja að Helga, sem og blaðamannafélag Íslands.
Guðmundur Ragnarsson sat í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna þegar málið átti sér stað og staðfestir við Stundina að hann hafi séð gögn Helga.
„Allt sem kom fram í greininni og Kastljósþáttunum er hundrað prósent rétt og ekkert þar sem var búið til eða falsað. Ég get staðfest það.“
Nánar má lesa um málið í ítarlegri umfjöllun Stundarinnar.