Þeir börðu í borðið. Að minnsta kosti í óeiginlegri merkingu. Og Jóhannes sendi harðort skeyti á Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur ferðamálaráðherra þar sem hann krafðist aðgerða. Ríkisstjórnin fundaði og daginn eftir var ákveðið að ferðamönnum frá Danmörku, Noregi, Finnlandi og Þýskalandi yrði bætt á lista yfir þau lönd sem undanþegin væru skimum og sóttkví við komu til landsins.
Þetta er var nokkurn veginn atburðarásin ef marka má væntanlega bók Björns Inga Hrafnssonar um kórónuveirufaraldurinn. Björni Ingi birtir nýtt kaflabrot úr bókinni á vef sínum, Viljanum.
„Fundað var í stjórnkerfinu um þessa stöðu næsta dag, mánudaginn 13. júlí 2020, og þar kom fram mikill vilji til að mæta þörfum Icelandair í þessum efnum. Bæði var talið að félagið mætti ekki við efnahagslegum skakkaföllum á þessum tíma og síðan það að gjaldeyristekjur af þessum ferðamönnum væru eftirsóknarverðar og því brýnt að finna leið til að yfirstíga takmarkanir hvað snerti skimunargetu.“
Þá segir frá harðorðum tölvupósti frá Jóhannesi Þór Skúlasyni, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), um að gripið yrði til aðgerða til að liðka frekar fyrir innanlandsflugi. Sagði Jóhannes að þolinmæði sín væri á þrotum. Í bréfinu segir að afstaða SAF sé sú að ferðatakmarkanir séu óboðlegar og samtökin krefjist þess að stjórnvöld finni lausnir sem komi í veg fyrir að takmarka þurfi lendingar í KEF.
„Það er sem sagt rúmur mánuður frá því að við bentum fyrst á að þetta eru algerlega óboðleg vinnubrögð. Niðurstaða stjórnvalda er að hundsa þessar skýru ábendingar og valda tjóni á bæði orðspori og viðskiptahagsmunum,“ segir meðal annars í þessum harðorða tölvupósti.
Samkvæmt bók Björns Inga var allt sett á fullt í stjórnkerfinu til að bregðast við þessum kröfum og daginn eftir var ákveðið að bæta Danmörku, Noregi, Finnlandi og Þýskalandi á örugga listann.