Kórónuveirufaraldurinn virðist vera í vexti hér á landi og er til skoðunar að herða samkomutakmarkanir vegna aukningar tilfella af COVID-19 smitum undanfarið. Verða auknar takmarkanir þó ekki ákveðnar fyrr en um eða eftir helgi. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi Almannavarna í dag vegna kórónuveirufaraldursins. Sagði Þórólfur líklegt að hertar takmarkanir myndu standa skemur yfir núna en var í fyrri bylgju faraldursins.
Sautján ný innanlandssmit greindust í gær sem er mesti fjöldinn á einum degi í þessari seinni bylgju faraldursins og mestur fjöldi greindra smita á einum degi frá 9. apríl síðastliðnum. Sjö af þessum 17 voru í sóttkví.
Einn er í öndunarvél á gjörgæslu með sjúkdóminn og nokkrir eru til athugunar á COVID-göngudeildinni. Sagði Þórólfur að vonir um að veiran væri veikari en í síðustu bylgju væru ekki á rökum reistar.
Sex þeirra sem greinst hafa nýverið voru í Vestmannaeyrjum um verslunarmannahelgina og sagði Þórólfur að þetta sýni áhættuna af því að fólk safnist saman.
Um 1.900 farþegar voru skimaðir á landamærum í gær, af 3.500 farþegum sem komu til landsins. Þrjú virk smit fundust og fóru þeir aðilar í einangrun. Einn er í bið.