Ef tekin eru saman heildarrefsingarár sem íslenskir dómstólar dæma má sjá stórkostlega aukningu á aðeins örfáum árum. Þannig dæmdu dómstólar samtals í 202 ára fangelsi árið 2000, en það sem af er árs 2020 hafa þeir dæmt fanga til 256 ára refsivistar, samkvæmt tölum frá Fangelsismálastofnun.
Frá árinu 1990-1999 dæmdu dómstólar Íslands fanga til 178 ára fangelsis að meðaltali. Á næstu 10 árum þyngdust samanlagðar refsingar um 35%, í 243 ár. Á síðasta áratug hefur þessi tala rokið upp í 300 ár að meðaltali.
Þannig hefur heildarlengd dóma á ári aukist um tæp 70% á aðeins tveim áratugum. Á sama tímabili hefur gæsluvarðhaldsföngum fjölgað umtalsvert, eða um 100% á 20 árum.
Leggst þung á fangelsiskerfið
Þynging dóma og fjölgun gæsluvarðhaldsfanga leggst mjög þungt á fangelsiskerfið. Biðlistar urðu fyrst til 2005 og hefur kerfinu ekki tekist að hrista þá af sér síðan. Raunar hafa þeir bara lengst. Því lengra sem hver fangi dvelur í kerfinu því meiri pláss tekur hann, eðli máls samkvæmt. Gæsluvarðhald fanga er svo þess eðlis að það hefur ruðningsáhrif í kerfinu. Fangelsi landsins þurfa að tryggja að það séu pláss fyrir gæsluvarðhald hverju sinni og með fjölgun meðaltalsfjölda gæsluvarðhaldsfanga þurfa fangelsin sífellt að gera ráð fyrir fleiri rýmum í fangelsum landsins undir gæsluvarðhaldsfanga.
Enn fremur hefja fangar sem eru í gæsluvarðhaldi við dómsuppkvaðningu langoftast afplánun um leið. Þannig færast þeir „fram fyrir röðina,“ og vera annarra á biðlistum eftir afplánun lengjast.
Áhrif þungra dóma vara lengi
Enn fremur er kerfið svo lítið hér á landi að lítið þarf til þess að „sprengja“ kerfið, sérstaklega í ljósi þess hve þanið það er fyrir. Þannig getur átak lögreglu í einhverju málaflokki eða örfáir þungir fíkniefnadómar haft teljandi áhrif á fangelsiskerfið í mörg ár á eftir. Nýlegu féllu tveir mjög þungir dómar í héraðsdómi og Landsrétti varðandi amfetamínframleiðslu. Í þeim fyrri voru þrír dæmdir til samtals 16 ára fangelsisvistar, og í því seinni fengu sexmenningar samtals 22 ára dóm. Samtals bættust því í aðeins tveim sakamálum 38 ár við heildarárafjölda dóma. Það eru um 10% af samanlagðri dómalengd síðasta árs, sem þó var metár.