Alma Möller, landlæknir, hefur undanfarna daga vakið athygli á hversu mikið af ungu fólki er nú að greinast með COVID-19 sjúkdóminn, en meira en helmingur virkra smita í landinu er hjá einstaklingum sem eru yngri en 40 ára, og 40 prósent smitaðra eru yngri en þrítugt.
Þetta er nokkuð sem hefur borið á víðar í heiminum og er talað um að unga fólkið beri uppi nýju bylgju COVID-19.
Talið er að unga fólkið sé komið með nóg af innilokun í einangrun og sóttkví og hafi því stuðlað að nýrri bylgju kórónuveirunnar með því að hlaupa eins og kálfar að vori út í sumarið.
„Unga fólkið þarf að gera sér grein fyrir að það ber ábyrgð,“ hefur Reuters fréttaveitan eftir Mike Ryan, yfirmanni hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni WHO. „Veltið fyrir ykkur þessari spurningu: Er í alvörunni nauðsynlegt að djamma?“
WHO hefur rakið aukinn fjölda COVID-19 til kæruleysis ungmenna sem hafi ekki staðið sig í stykkinu varðandi tveggja metra reglu og takmarkað návígi við aðra. Formaður WHO, Tedros Adhanom Ghebreyesus segir : „Unga fólkið er ekki ónæmt; unga fólkið er ekki ódauðlegt; og unga fólkið getur smitað aðra.“
Sérfræðingar telja að ungmenni séu ólíklegri en aðrir til að nota andlitsgrímur og virða fjarlægðarmörk. Þau eru einnig líklegri til að mæta til vinnu, á ströndina, á barinn eða í verslanir.
WHO hefur nú lagt aukan áherslu á að ná til ungmenna og brýna fyrir þeim samfélagslega ábyrgð og nauðsyn sóttvarna. Alma Möller hefur lýst yfir að á Íslandi þurfi að gera slíkt hið sama og finna leiðir til að ná betur til þessa hóps.