fbpx
Föstudagur 20.desember 2024
Fréttir

Hörð viðbrögð við Sveppatínslu á RÚV – „Það eru til eitraðir sveppir á Íslandi“

Heimir Hannesson
Þriðjudaginn 4. ágúst 2020 12:05

Sveppir teygja sig víða neðanjarðar og eiga í samskiptum um langar vegalengdir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sveppatínsla er áhugamál sem á sér talsverðan fjölda fylgismanna hér á landi og fer fjöldinn vaxandi. Til dæmis telja meðlimir hópsins á Facebook „Funga Íslands – sveppir ætir eður ei“ nú rétt tæplega fjögur þúsund. Síðan er til þess gerð að meðlimir geti deilt myndum af sveppum, hafið umræður um sveppategundir og deilt þekkingu á matsveppum til þess að geta notið þeirra „á öruggan hátt.“ Þar stendur jafnframt: „ATH: Aldrei skal borða svepp sem óvissa er um hvort sé ætur eða ei.“

Því mátti búast við að meðlimir hópsins hrukku upp við orð sem féllu í Sumarlandanum í gær. Þar ræddi sjónvarpskonan Helga Margrét Höskuldsdóttir við bændur í Dýrafirði um sveppi og sveppatínslu.

„En hvernig þekkir maður þessa ætu frá þeim eitruðu, eða eru kannski engir eitraðir hérna í kring,“ spurði Helga Margrét viðmælendur sína. „Ég held að það sé nú ekki mikið um eitraða sveppi á Íslandi – en það er kannski að þeir séu misgóðir, besta ráðið er einfaldlega að taka smá flís og smakka, ef hann er bitur er hann kannski ekki góður matsveppur,“ var svarið.

Þessi orð féllu heldur betur í grýttan jarðveg meðal áhugamanna um sveppatínslu og vöktu upp talsverðar umræður á samfélagsmiðlum í gærkvöldi og í morgun, meðal annars á fyrrnefndum „Fungi Íslands“ hópi íslenskra sveppaunnenda.

„Það eru eitraðir sveppir á Íslandi“

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og annar stjórnandi Facebook hópsins, segir þetta alrangt. „Já, það eru eitraðir sveppir á Íslandi, töluverður slatti,“ sagði Guðríður. „Sem betur fer eru þó mjög margir þeirra litlir og ljótir og ekki þannig að manni langi til að borða þá.“ Hún bendir á að í mörgum íslenskum sveppum sé efnið múskarín sem hafi sljóvgandi áhrif á ósjálfráða taugakerfið í mannslíkamanum. Það geti verið hættulegt þeim sem hafi undirliggjandi og ómeðhöndlaða hjartasjúkdóma. „Þetta getur fengið fólk til þess að tárast, maður getur fengið hjartsláttatruflanir eða breyttan hjartslátt og allskonar magaóþægindi,“ segir Guðríður.

Svo eru aðrir sveppir sem eru baneitraðir segir Guðríður sem eru vissulega ekki til á Íslandi. Þar vísar hún til ættingja berserkjasveppsins, hvítserks og grænserks til dæmis. Hvítserkurinn vex til dæmis langt norður í Noregi og segir Guðríður hann vel geta vaxið á Íslandi líka.

„Reglan er sú að maður á að og þarf að læra nokkrar góðar matsveppategundir, sem maður tínir gagngert til þess að borða,“ segir Guðríður, „Maður þarf að læra fáeinar tegundir sem eru góðar, og maður getur í raun alveg komist af með eina tegund, til dæmis furusveppi. Það kæmi ekkert illa út fyrir mann.“

Getur reynst hættulegt að „smakka sig til“

Aðspurð hvort ráðlagt sé að „smakka sig til“ eins og bent sé á í Sumarlandanum segir Guðríður að ef maður leggi í þá vegferð eigi að umgangast sveppi eins og vín í vínsmökkun. Taka litla bita, tyggja og spýta þeim út. Svo eigi að skola munninn með vatni og spýta því líka út. Guðríður segir þó alls ekki algilt að bragð finnist af eitrinu. „Það eru allskonar aðferðir sem gengið hafa manna á milli áratugum saman um það hvernig maður eigi að þekkja eitraðar tegundir, en það bara virkar ekki, maður verður að þekkja tegundina. Þá greinir maður sjálfa sveppategundina.“ Guðríður bætir því jafnframt við að þeir sem borðað hafa eitraða berserkjasveppi hafa sagt þá milda á bragðið þó þeir hafi reynst baneitraðir. Eitur finnst ekki á bragðinu.

Enn fremur bendir Guðríður á að fólk geti verið með ofnæmi fyrir vissum sveppum eða meltingaróþol. „Það er sniðugt að byrja að borða lítið magn af nýjum matsvepp til að athuga hvort meltingin þoli þessa nýju viðbót í matarflóruna. Einn sveppur getur verið fínn fyrir einn mann en vondur fyrir næsta mann.“

Ferskvara sem þarf að umgangast af virðingu

Að lokum bendir Guðríður á að sveppir séu ferskvara og þá beri að umgangast sem ferskvöru. „Það þarf helst að tína unga sveppi, ekki alveg örsmáa, en frekar sveppi sem eru á „unglingsaldri,“ þeir þurfa að vera komnir með einkenni sem maður notar til þess að greina tegundina. Gamla sveppi skilur maður svo eftir fyrir náttúruna að gæða sér á.“ Guðríður segir að maður verði að velja ferska sveppi og verka þá fljótt því það getur slegið í sveppina fljótt jafnvel þó maður sé með þá í kæli. „Maður þarf þá að skera miklu meira burt úr sveppnum ef maður kemst ekki í að hreinsa og verka sveppina samdægurs.“

„Það er rosalega gaman að borða sveppi, þeir gefa mat nýtt bragð og áferð og hafa alla burði til þess að breyta hversdagsmat í sunnudagsmáltíð,“ segir Guðríður. En maður þarf að vanda til verks. „Megnið af fólki sem leitar til eitrunarmiðstöðvar er vegna þess að einhver hefur stungið svepp upp í sig sem hann vissi ekkert hvað var og borðað hann. Guðríður beinir því einnig til fólks að smakka ekki sveppi í náttúrunni svo börn sjái til. „Börnin skilja þetta ekki og geta allt eins ákveðið síðar meira að gera eins og mamma eða eins og frænka og tekið upp á því að borða sveppi úti á víðavangi. Þau gætu kyngt þeim og það er bara ekki þess virði að hafa svoleiðis fyrir börnum.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður
Fréttir
Í gær

Viðvörunarhljóð í Kringlunni og öllum gestum Hagkaupa vísað á dyr – Reyndist ástæðulaus ótti

Viðvörunarhljóð í Kringlunni og öllum gestum Hagkaupa vísað á dyr – Reyndist ástæðulaus ótti
Fréttir
Í gær

Þegar hægri öflin á Íslandi ræða háa skatta gleymi þau að nefna að skattar á ríka Íslendinga eru með þeim lægstu

Þegar hægri öflin á Íslandi ræða háa skatta gleymi þau að nefna að skattar á ríka Íslendinga eru með þeim lægstu
Fréttir
Í gær

Arkitekt um þéttingarreiti í Reykjavík: „Ekki skrýtið að fólk sé að upplifa kulnun og streitu“

Arkitekt um þéttingarreiti í Reykjavík: „Ekki skrýtið að fólk sé að upplifa kulnun og streitu“
Fréttir
Í gær

Ferðamaður varð fyrir líkamsárás

Ferðamaður varð fyrir líkamsárás