fbpx
Miðvikudagur 23.apríl 2025
Fréttir

Þrjár kenningar um útspil Áslaugar Örnu – Formaður bæjarráðs segir málið „galið“

Heimir Hannesson
Miðvikudaginn 29. júlí 2020 10:58

Njáll Ragnarsson mynd/ Eyjar.net/ Tryggvi Már

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Líkt og DV sagði frá í gær eru Vestmannaeyingar uggandi yfir fréttum af væntanlegri tilfærslu Ólafs Helga Kjartanssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum til Vestmannaeyja. Sagði Fréttablaðið frá því í gær að, samkvæmt heimildum sínum, hafi Ólafi verið sagt að flutningur hans til Vestmannaeyja tæki gildi næstu mánaðamót, þ.e. í þessari viku.

Óhætt er að segja að Vestmannaeyingar tóku ekki vel í þessar fréttir gærdagsins og upplifðu margir sem verið væri að „sturta vandamálum Suðurnesja og dómsmálaráðherra“ yfir sig. Ýmsar kenningar eru á sveimi um hvernig á þessu geti staðið og virðast þrjár sitja eftir.

Ólafur Helgi Kjartansson við dómsuppsögu í máli Guðmundar í Byrginu.
mynd/Gunnar V. Andrésson

Þrjár kenningar

Sú fyrsta er að þetta sé lokatilraun Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra til að fá Ólaf sjálfan til að segja starfi sínu lausu. Áður hefur komið fram að Áslaug hafi boðið honum að hætta sem þykir renna stoðum undir kenninguna.

Önnur snýr að því að með tilfærslunni sé verið að gjaldfella embætti lögreglustjóra í Vestmannaeyjum. Síðan Björn Bjarnason vermdi sæti dómsmálaráðherra hafa dómsmálayfirvöld, leynt og ljóst, unnið að frekari sameiningum lögreglustjóraembætta. Í skýrslu um málið frá árinu 2009 kom fram að markmið ráðuneytisins væri að fækka þeim niður í sex. Þannig yrðu lögreglustjóraembættin á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Suðurlandi, Austurlandi, Norðurlandi og Vesturlandi eftir. Til þess að ná þessu markmiði þarf því að leggja niður embættin á Vestfjörðum og Vestfjörðum og sameina embættin á Norðaustur- og Norðvesturlandi. Með því að færa umdeildan mann sem „nýtur einskis trausts,“ í lögreglustjórastöðu í Vestmannaeyjum væri embættið gjaldfellt og eftirleikurinn, aflögn embættisins, hægðarleikur. Samkvæmt kenningunni myndi Ólafur Helgi klára sín örfáu ár eftir í embætti, en hann verður 67 ára 2. september á þessu ári, og yrði síðasti lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum.

Þriðja kenningin er einföldust en um leið líklega sú sem Eyjamenn óttast mest – það á einfaldlega að koma Ólafi Helga fyrir í Vestmannaeyjum.

„Vestmannaeyingar í áfalli“

Njáll Ragnarsson, formaður Bæjarráðs og oddviti Eyjalistans, segir málið einfaldlega „galið.“ „Vestmannaeyingar eru hreinilega í áfalli yfir þessu.“ Njáll segir jafnframt að ef rétt reynist, og til standi að skipta Páleyju Borgþórsdóttur, fyrrverandi lögreglustjóra í Eyjum og Aldísi Báru, settum lögreglustjóra út fyrir Ólaf Helga þá sé það blaut tuska í andlit Vestmannaeyinga.

Njáll segir þetta þó að sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi alla tíð staðið fyrir: „Því miður er þetta það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur að hluta til snúist um, að koma sínum gæðingum fyrir í stöður út um allt land, algjörlega óháð hæfni þeirra í störfin. Í því ljósi, þá skýrist margt,“ segir Njáll, „en eftir situr að við Eyjamenn sitjum uppi með þessi bítti sem enginn Vestmannaeyingur mun sætta sig við.“

Aðspurður um áðurnefndar kenningar um útspil Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, segir Njáll það vel koma til greina að verið sé að gjaldfella embættið. „Það gæti alveg vakið fyrir ráðherra að hreinlega gengisfella stöðuna, koma manni sem nýtur einskis trausts og klára bara embættið þannig. Það hefur auðvitað verið rætt um að leggja embættið niður í áraraðir.“

Krefjast þess að staðan verði auglýst

„Okkur krafa er einfaldlega sú að staðan verði auglýst, að við fáum lögreglustjóra sem nýtur trausts almennings, er starfi sínu vaxin og loks að sá einstaklingur geti rifið embættið upp, eflt það og staðið undir því trausti sem lögreglan þarf að hafa,“ segir Njáll. Bendir hann jafnframt á að traust bæjarbúa gagnvart lögreglu sé sérstaklega mikilvægt í litlu og nánu samfélagi eins og Vestmannaeyjar eru.

„Auðvitað vonar maður bara að þessar sögusagnir séu ekki réttar, en miðað við allt sem hefur komið fram og sögu bittlíngastjórnmála á Íslandi, þá kemur manni ekkert á óvart orðið. Maður trúir öllu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Alfa brýnir okkur til að tilkynna til barnaverndar ef okkur grunar að barn verði fyrir ofbeldi

Alfa brýnir okkur til að tilkynna til barnaverndar ef okkur grunar að barn verði fyrir ofbeldi
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Auður biðlar til Ölmu Möller og spyr: Hvar er lækningin?

Auður biðlar til Ölmu Möller og spyr: Hvar er lækningin?
Fréttir
Í gær

Manstu ekkert eftir þér sem smábarn? – Þetta er ástæðan

Manstu ekkert eftir þér sem smábarn? – Þetta er ástæðan
Fréttir
Í gær

Forseti Íslands setur Stóra plokkdaginn á sunnudaginn

Forseti Íslands setur Stóra plokkdaginn á sunnudaginn
Fréttir
Í gær

Íslendingar minnast Frans páfa – „Væn manneskja“

Íslendingar minnast Frans páfa – „Væn manneskja“
Fréttir
Í gær

Hefur ekki fengið borgað fyrir bílskúrinn

Hefur ekki fengið borgað fyrir bílskúrinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Varar við vinsælum olíum til steikingar – Segir þær geta valdið hættulegu krabbameini

Varar við vinsælum olíum til steikingar – Segir þær geta valdið hættulegu krabbameini
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tólf skotnir til bana á hanabardaga

Tólf skotnir til bana á hanabardaga