fbpx
Laugardagur 15.febrúar 2025
Fréttir

Nýjar vendingar í Hrísey – Vilhelm með langan afbrotaferil – „Við erum að feta þennan bankafærsluslóða“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 27. júlí 2020 12:00

Samsett mynd DV. Mynd frá Hrísey: Fréttablaðið/Halldór Friðrik Þorsteinsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

DV greindi frá því á föstudag að maður væri grunaður um að hafa rænt 2,8 milljónum króna af 83 ára gömlum manni í Hrísey með því að millifæra af debetkorti hans á aðra bankareikninga. DV hefur heimildir fyrir því að samband gamla mannsins við meintan velgjörðarmann sinn, Vilhelm Norðfjörð Sigurðsson, veki tortryggni sumra. Vilhelm hefur hlotið nokkra sakadóma, síðast árið 2017.

Sjá einnig: Glæpur skekur Hrísey – Aldraður maður rændur milljónum

Meintur ræningi dvaldist í húskofa á lóð gamla mannsins í nokkra sólarhringa. Hann kom inn í hús hans til að sinna þrifum. „Helvítis kvikindið læddist í kortið mitt. Hann vissi að ég ætti [X] milljónir á reikningnum en hann sagðist ekki hafa kunnað við að taka meira. Einhvern veginn þefaði hann uppi pin-númerið. Ég frétti af því að hann hefði sagt að hann væri að hjálpa gömlum manni sem væri farinn að treysta honum fyrir debetkortinu hans, en það er bara lygi,“ sagði gamli maðurinn í viðtali við DV á föstudag.

Hinn áðurnefndi Vilhelm Norðfjörð Sigurðsson hlutaðist til um þessi tengsl gamla mannsins og hins meinta ræningja. Vilhelm, sem er tæplega 39 ára gamall, hefur verið í vináttusambandi við gamla manninn og hefur verið að liðsinna honum um eitt og annað. DV ræddi við Vilhelm á föstudag. Sagði hann að hinn meinti ræningi hafi verið nýkominn úr fangelsi er hann kom honum fyrir í kofa á lóðinni hjá gamla mannsins. Aðspurður hvort það væri ekki ábyrgðarhlutur að hleypa dæmdum sakamanni inn til hans gamla vinar varð heldur fátt um svör hjá Vilhelm, en hann sagði að þessi maður hefði brugðist trausti sínu og logið sig fullan.

Sem fyrr segir vekur þetta samband Vilhelms og gamla mannsins tortryggni sumra. Árið 2017 var Vilhelm dæmdur í þriggja mánaða fangelsi og sviptur ökuréttindum ævilangt fyrir alvarlegt umferðarlagabrot. Sama ár var hann dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir þjófnaðarbrot. Árið 2014 var hann sakfelldur fyrir hótanir í garð lögregluþjóns á Egilsstöðum og dæmdur í 30 daga fangelsi. Árið 2008 var hann sakfelldur fyrir líkamsárás. Vilhelm hefur ekki hlotið dóm síðustu þrjú árin. Hann ítrekar sakleysi sitt og nýtur trausts gamla mannsins.

Í samtali við DV á föstudag nafngreindi Vilhelm hinn meinta brotamann í máli gamla mannsins. Þar sem lögregla hefur ekki viljað staðfesta að sá maður sé grunaður um glæpinn verður ekki greint frá nafni hans í bili. En sá maður er þrítugur að aldri og á einnig brotaferil að baki. Nú síðast í maí 2020 var hann sakfelldur fyrir umferðalagabrot og fjársvik, þess efnis að hafa greitt margsinnis fyrir bensín með greiðslukorti sem var ekki í hans eigu.

„Við erum að feta þennan bankafærsluslóða“

„Ég er að afla mér gagna frá bönkunum og þetta tekur bara tíma, við erum að feta þennan bankafærsluslóða og erum með klær úti til að ná sambandi við þessa einstaklinga,“ sagði Jónas Halldór Sigurðsson, rannsóknarlögreglumaður á Akureyri, er DV hafði samband við hann í morgun. Jónas vildi ekki veita frekari upplýsingar um málið og ekki staðfesta nöfn neinna sem tengjast málinu.

Ekki liggur fyrir hverjir eru eigendur þeirra bankareikninga sem hinn grunaði millifærði inn á, né hve reikningarnir eru margir. Staðfest er að þeir eru fleiri en einn.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt