Björgunarskipið Gísli Jóns kom á vettvang um klukkan hálf tvö með gönguhópa sem voru settir í land í Fljótavík. Flytja átti gönguhópana inn eftir Fljótsvatni á slöngubát og koma þeim eins nærri Þorleifsskarði og hægt er til að stytta gönguna. Um sex kílómetrar eru frá lendingarstaðnum í Fljótavík að Þorleifsskarði. RÚV skýrir frá þessu.
RÚV hefur eftir Daníel Má Bjarnasyni, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, að ekki hafi náðst samband við fólkið síðan hjálparbeiðnin barst og ekki hafi tekist að staðsetja það nákvæmlega. Hann sagði að menn telji sig vita nokkurn veginn hvar fólkið er.
RÚV segir að leit standi enn yfir en svartaþoka er á svæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Ísafirði voru leitarmenn komnir að Þorleifsskarði en þokan hamlar leit. Beðið verður um aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar um leið og léttir til ef fólkið hefur ekki fundist áður.