Í rúmt ár hefur Bjartmar Leósson átt sér áhugamál ólíkt flestum öðrum. Hann þefar upp og bjargar týndum og stolnum reiðhjólum, rafhjólum og vespum. Hefur Bjartmar áunnið sér nafnið „hjólahvíslarinn“ fyrir vikið.
Í gær varð svo uppi talsvert fjaðrafok þegar maður birti frásögn af samskiptum sínum við Bjartmar.
Vísaði DV þá í umræður á Facebook hóp Vesturbæinga þar sem fram kom að Bjartmar hafi tekið manninn á tal á Austurvelli og sagt vespuna mögulega vera stolna. Var ekki annað hægt að lesa úr upphaflegu skrifum rafskutlumannsins en að Bjartmar hafi þjófkennt hann. Þeim texta hefur nú verið breytt á Facebook og fyrirsögn upphaflegu fréttar DV uppfærð í samræmi við það.
Bjartmar segir upphaflegar fréttir af málinu alls ekki lýsandi fyrir það sem raunverulega gekk á í gær á Austurvelli. Bjartmar sagðist hafa fengið upplýsingar frá fórnarlambi rafskutlustuldar um að þetta væru sannarlega sín rafskutla. Þær upplýsingar fékk meintur eigandi frá öðrum, en upplýsingarnar reyndust rangar segir Bjartmar.
„Ég sá til gaursins og ég kannaðist við skutluna, enda með upplýsingar um að þarna væri rafskutla sem hafði verið saknað mjög lengi og leitað hafi verið að. Ég hikaði vissulega fyrst, en þegar ég sá hann búa sig undir að aka af stað á skutlunni ákveð ég að kýla á að ræða við manninn. Eigandinn var viss í sinni sök og ákvað ég því að eiga samtal við manninn. Almennt fer ég mjög fínt í svona mál, en áður en ég náði að klára það sem ég hafði að segja hafði maðurinn tekið af mér orðið.“
Bjartmar segir að maðurinn á rafskutlunni hafi undir eins boðið honum að sýna honum kvittunina fyrir hjólinu og hafi sjálfur kallað til lögreglu. „Já, flott,“ sagði Bjartmar, „fáum þetta bara á hreint.“ Svo fór að eigandi rafskutlunnar sannaði eignarhald á rafskutlunni sinni og ók af stað. Síðar sagði réttur eigandi rafskutlunnar frá sögu sinni á Facebook, líkt og greindi frá í fyrri frétt.
Á þessu rúmu ári sem Bjartmar hefur lagt stund á þessa iðkun sína segist hann geta talið skiptin sem hann lenti upp á kant við fólk á fingrum annarar handar. „Ég hef átt í friðsamlegum samskiptum við erfiðustu menn Reykjavíkur,“ sagði Bjartmar og bendir á að reiðhjólaþjófar séu langoftast minnstu bræður og systur samfélagsins, fíklar, geðfatlað fólk og annað fólk sem einhverra hluta vegna er á götunni. „Fíknin er harður húsbóndi og einhvernveginn þarf að fjármagna næsta skammt, því miður er þjófnaður á svona lausafjármunum auðveld leið að því markmiði,“ segir Bjartmar. „Samskipti mín við þetta fólk eru í raun svo góð að ég er komin með margt af því góða fólki með mér í lið. Dæmi eru um að fólk hafi farið í meðferð og tekið sig á og leitað svo til mín og aðstoðað mig við það sem ég er að gera,“ segir hann.
Almennt séu samskipti Bjartmars við reiðhjólafólk á kurteisislegum nótum. Sumir vita af honum og hvað hann er að gera og bjóðast friðsællega til þess sanna eignarhald hjóla sinna, til dæmis með að skoða stellnúmer þeirra. Reiðhjólaþjófnaður sé stórt vandamál sem lítið hefur verið fjallað um. Ennfremur segir Bjartmar að lögreglan sé meira að segja farin að benda fólki á að tala við hann útaf stolnum reiðhjólum.
Bjartmar er ósáttur við fyrri fréttaflutning DV og segist ekki vera eitthverskonar sjálfskipuð lögregla í persónulegri leit að réttvísinni. Aðspurður hvort hann sé nú samt ekki kominn á hálan ís með athæfi sínu, og hvort þetta sé ekki fyrst og fremst hlutverk lögreglu, segir Bjartmar svo vissulega vera. „Auðvitað á löggan að gera þetta, en staðreynd málsins er að löggan er hreinlega ekki að sinna þessu. Ég hef til að mynda horft upp á lögreglumenn keyra í burtu frá stórri hrúgu af stolnum hjólum. Hún er hreint út sagt grútmáttlaus í þessum málum.“
„Þegar löggan er ekki að gera neitt í þessu, og þetta er bara fyrir framan nefið á þér, og reynslan hefur sýnt að ég get náð árangri í þessum málaflokki, þá afhverju ekki?“ spyr Bjartmar. Hann segist hafa náð svo miklum árangri í að hafa uppi á stolnum hjólum, að stundum rekist hann á sína „skjólstæðinga“ á götunni að þá hafi þeir bara rétt Bjartmari hjólin sem þeir höfðu áður náð sér í. Þau skipti sem Bjartmar hefur kallað eftir aðstoð lögreglu hefur komið fyrir að hún hreinlega mæti ekki. „Þetta er bara ekki að virka með lögregluna, og það er ekki mér að kenna og það er ekki eigendum reiðhjólanna að kenna,“ sagði Bjartmar og þykir það leitt að fórnarlömb reiðhjólaþjófnaða þurfi að líða fyrir tómlæti lögreglu í þessum málaflokki.
Um árangur Bjartmars er ekki deilt. Víða má finna sögur af fólki þakka Bjartmari fyrir að hafa náð eigum sínum til þeirra aftur. Sjálfur segir Bjartmar löngu vera búinn að týna tölunni á fjölda reiðhjóla sem hann hefur skilað, en upphæðirnir hlaupi sjálfsagt á milljónum, ef ekki milljónatugum. Vega þar rafmagnsvespur, rafhjól og rafmagnsskutlur þungt, en rafhjól getur kostað upp undir hálfa milljón.
Bjartmar starfar að degi til á leikskóla og aðra hverja helgi vinnur hann á sambýli. Reiðhjólaleitin hans er því ólaunuð vinna sem hann sinnir í frítíma sínum.