fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
Fréttir

Heilt fjölbýlishús grotnar niður á besta stað í borginni

Heimir Hannesson
Sunnudaginn 26. júlí 2020 08:30

Dunhagi 18-20 mynd/Ernir Eyjólfsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rúmenskir verkamenn búa frítt á Dunhaga 18-20. Á meðan sækjast eigendur eftir byggingarleyfi til endurbóta en erindi þeirra hefur velkst um í kerfinu í á þriðja ár.

Í einu elsta, grónasta og dýrasta hverfi Reykjavíkurborgar stendur veglegt fjölbýlishús á þremur hæðum. Á jarðhæð hússins er um 600 fermetra verslunarrými. Bakvið húsið eru dyr tveggja stigaganga sem hvor um sig geymir fjórar nokkuð veglegar íbúðir. Eru þær á bilinu 93- 130 fermetrar, þó flestar yfir 100. Húsið hefur talsverða sögu að geyma. Það var reist 1959 og hefur m.a. hýst vídeóleigu, Skóstofuna, mjólkurbúð Mjólkursamsölunnar, Jóa byssusmið, fisksölu og nú síðast Háskólaprent.

Húsið hefur, svo vægt sé til orða tekið, munað sinn fífil fegurri. Húsið liggur nú undir miklum skemmdum, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Eigandi hússins er D18 ehf. Eigendur D18 ehf. eru samkvæmt fyrirtækjaskrá meðal annarra Magnús Magnússon og Guðrún Helga Lárusdóttir. Magnús fór fyrir eigendahópi Borgunar og var forsvarsmaður eignarhaldsfélagsins Borgunar. Í hópi eigenda eignarhaldsfélagsins Borgunar er Stálskip ehf. Stálskip ehf. er fjárfestingarfélag Guðrúnar Helgu Lárusdóttur og barna hennar. Guðrún er jafnframt eigandi þriðjungshlutar í D18 ehf. Guðrún og eiginmaður hennar, Ágúst Guðmundur Sigurðsson, ráku eitt sinn útgerðina Stálskip.

mynd/Ernir Eyjólfsson

Vont hús og verri stjórnsýsla

D18 ehf. keypti húsið sumarið 2009 og hefur því lítið sem ekkert verið haldið við síðan þá. Segja nágrannar að ástand hússins hafi versnað stöðugt síðan, þó mest á nýliðnum árum. Á Facebooksíðu íbúa í hverfinu segir einn íbúi að húsið hafi „ekki verið sérlega líflegt síðustu ár“. Þar kann að spila inn í að eigendur hafa um nokkurra ára skeið sóst eftir því að breyta húsinu og lóðinni.

Aðrir nágrannar segja húsið lengi ekki hafa verið í lagi. „Það er löngu tímabært að gera eitthvað almennilegt við þennan blett og leiðinlegt að þetta hafi dregist svona.“ Segir hann jafnframt að hann sé fúll út í eigendur hússins fyrir að hafa ekki drifið sig í að klára þetta, fundið einhvern sameiginlegan flöt með nágrönnum hússins og hætt þessu „lögfræðistappi“. „Gera þetta bara í samráði við samfélagið í kring svo hægt sé að drífa í þessu og klára það.“

mynd/Ernir Eyjólfsson

„Lögfræðistappið“ sem íbúinn vísar til er skipulagsferli reitsins sem hefur verið í gangi a.m.k. síðan 2017. Sóttust þá eigendur Dunhaga 18 og 20 eftir heimild til að byggja hæð ofan á núverandi fjölbýlishús og fyrir aftan húsið, nýtt lyftuhús og viðbyggingu á einni hæð auk kjallara. Byggingarleyfið sem veitt var fyrir þeirri framkvæmd var kært til Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál og felldi nefndin það úr gildi þar sem framkvæmdin átti sér ekki stoð í deiliskipulagi og grenndarkynning var ekki fullnægjandi.

Á byrjunarreit þremur árum síðar

Reykjavíkurborg fór þá af stað með deiliskipulagsvinnu og lauk henni með auglýsingu í Stjórnartíðindum í júlí í fyrra. Það skipulag var einnig kært og felldi nefndin það úr gildi í mars 2020. Á þessum tímapunkti voru því nærri þrjú ár liðin frá upphaflegri umsókn um byggingaleyfi og eigendur hússins á byrjunarreit. Húsið hafði á þessum tíma drabbast niður töluvert og nágrannar teknir að þreytast.

Þegar DV spurði nágranna hússins út í ástandið og viðbrögð nágranna voru svörin á ýmsa vegu. Sumir höfðu skilning á ætlunum eigenda hússins, aðrir alls ekki. Aðrir beindu reiðinni að borginni, aðrir ekki. Aðrir voru bara reiðir en ekkert endilega út í neinn. Enn aðrir sögðu bílastæðin þrætuepli, en nágrannar hafa nýtt ónotuð bílastæði Dunhaga 18-20 undir sín ökutæki. Einn kærandi í málinu sagðist langþreyttur á stjórnsýslunni: „Að við skulum þurfa að fara í gegnum ferlið í þrígang er alveg ótrúlegt. Það er eins og Reykjavíkurborg kunni ekki að lesa.“

mynd/Ernir Eyjólfsson

Í dag stendur húsið tómt, yfirgefið og er vanrækt. Minnisvarði um svifaseina stjórnsýslu borgarinnar og göfugar ætlanir eiganda og margra ára vinnu þeirra sem nú er á byrjunarreit. Þegar blaðamann bar að garði á Dunhaga 18 blöstu við honum galopnar dyr og ruslahrúgur. Playstation-tölva og nýlegt sjónvarp lágu innan um annað rusl á jörðinni – fórnarlömb íslenskrar sumarbleytu. Opið var inn í gömlu skrifstofu Háskólaprents og þar talsvert af köttum af hlandlyktinni að dæma. Ljóst er að einhver hefur hreiðað um sig í einu horninu en enginn sjáanlegur. Staflar af sófum og rúmum og nokkur bretti af jarðfræðiblaðsíðum, sem eflaust áttu að verða að bók, blöstu við.

Rúmenar í ókeypis húsnæði

Stigagangar íbúðarhússins voru jafnframt opnir og líf í þeim báðum. Blaðamaður var svo heppinn að rekast á íbúa annars þeirra. Voru þar Rúmenar að sjóða sér kartöflurétt í kvöldmat og buðu blaðamanni inn. Rúmenarnir vinna fyrir starfsmannaleiguna Ztrongforce ehf. Þeir hafa verið þar um einhverja hríð og herma heimildir DV að fyrirtækið hafi ekkert greitt fyrir húsnæðið nema hita og rafmagn. Vegna ástands hússins þykir ekki forsvaranlegt að innheimta leigu. Af stæðum pósts í anddyri hússins að dæma er ljóst að þar hefur búið einhver fjöldi af erlendu verkafólki á síðustu misserum.

Rekstur starfsmannaleiga hefur ekki farið varhluta af Covid-19-„ástandinu,“ enda samdráttur í ferðamennsku leitt til samdráttar í byggingageiranum og þessir tveir bransar verið hvað duglegastir að nýta sér þjónustu starfsmannaleiga. Engu að síður virtust heimilismenn á Dunhaga 18 hafa nóg að gera og héngu vinnugallarnir og vettlingarnir í sameigninni til þerris eftir langan vinnudag í rigningunni. Tekið skal fram að þrátt fyrir ömurlegt ástand hússins virtist íbúðinni sem strákarnir deildu vera ágætlega viðhaldið.

Þegar blaðamaður kvaddi strákana rúmensku varð honum kaldhæðnin skyndilega skýr: Á besta stað í Reykjavík stendur 1.500 fermetra fasteign niðurnídd. Eigendur vilja breyta húsinu til batnaðar og nágrannar vilja bætt ástand en deila um skilgreininguna á „batnaði“. Á milli situr svo skipulagssvið borgarinnar á byrjunarreit, fórnarlamb endalausra áfrýjunarleiða og kærumöguleika í skipulagsferlinu og svifaseinnar úrlausnar Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál. Í húsinu búa svo rúmenskir verkamenn, kannski einmitt þeir sem fara í að bæta ástandið, þegar Íslendingarnir hætta að rífast.

mynd/Ernir Eyjólfsson

Greinin birtist upphaflega í helgarblaði DV 17. júlí. Upplýsingar um áskrift má nálgast með því að senda póst á askrift@dv.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Samfylkingin gagnrýnir auglýsingu á vef Hafnarfjarðar harkalega – Hleypi illu blóði í viðræður

Samfylkingin gagnrýnir auglýsingu á vef Hafnarfjarðar harkalega – Hleypi illu blóði í viðræður
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Foreldrar leikskólabarna fagna áfangasigri – Eru afar ósátt við dómsmálaráðherra

Foreldrar leikskólabarna fagna áfangasigri – Eru afar ósátt við dómsmálaráðherra
Fréttir
Í gær

Gjaldþrota fyrirtæki Quang Le skipað að endurgreiða lyklagjald vegna leigusamnings sem aldrei var efndur

Gjaldþrota fyrirtæki Quang Le skipað að endurgreiða lyklagjald vegna leigusamnings sem aldrei var efndur
Fréttir
Í gær

Samherji leggur listamann í bresku dómsmáli – Villti á sér heimildir og baðst afsökunar

Samherji leggur listamann í bresku dómsmáli – Villti á sér heimildir og baðst afsökunar